Gísla Árna Gíslasyni, íbúa á Arnarnesi í Garðabæ, brá heldur betur í brún núna stuttu eftir hádegi í dag þegar hann kom að uglu sitjandi á reiðhjóli sonar síns, en uglan naut sín svo þar í um tvo tíma á eftir. Í samtali við mbl.is segir Gísli að uglan hafi verið nokkuð gæf, enda hafi hann komist í um eins metra fjarlægð frá henni.
„Strákurinn okkar og vinur hans ætluðu út að leika sér og þá sat hún bara á hjólinu hans hérna úti á pallinum hjá okkur. Það er smá grillskyggni sem hún sat undir og var að njóta lífsins bara,“ segir Gísli Árni og bætir við: „Ég hélt fyrst að hún væri kannski særð eða eitthvað slíkt, en það virtist ekki vera. Svo þegar ég nálgaðist hana mest þá bara hvæsti hún á mig og flaug svo í burtu.“
Áður hafði hún þó setið á pallinum í drykklanga stund. „Hún sat þarna í um það bil tvo tíma. Þegar við tókum eftir henni frestuðum við því aðeins að fara út og horfðum bara á hana talsvert og tókum af henni fullt af myndum, og ég komst alltaf nær og nær,“ segir Gísli Árni.
Árni segist hafa prófað að gefa fuglinum lifrarpylsu til að athuga hvort hún sýndi einhver viðbrögð. „Við vorum með smá bita og köstuðum í áttina til hennar. Hún horfði á hann en fór aldrei í hann. Hún var rosalega róleg og var lengi vel bara með lokuð augun, eins og hún væri sofandi eða að hvíla sig.“
Aðspurður segist hann áður hafa séð uglur í námunda við heimili sitt, en ekki svona nálægt. „Við erum skammt frá sjónum og ég hef stundum séð þær fljúga hérna á kvöldin. En ég hef aldrei séð þær sitjandi svona nálægt mér.“