Rúmlega 108 þúsund hafa sótt smitrakningarappið

Embætti landlæknis hefur haft yfirumsjón með þróun smitrakningarappsins. Mynd úr …
Embætti landlæknis hefur haft yfirumsjón með þróun smitrakningarappsins. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan

Þrátt fyrir að næstum þriðjungur þjóðarinnar hafi hlaðið smitrakningarappi almannavarna niður í símann sinn hefur ekki enn komið til þess að appið hafi nýst við smitrakningu.

Ástæðan er einfaldlega sú að það hefur ekki gerst ennþá að einstaklingur með appið í símanum hafi greinst með kórónuveirusýkingu. Miðað við þann fjölda sem náð hefur í appið er aðeins tímaspursmál hvenær appið verður notað við smitrakningu.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá embætti landlæknis til mbl.is. Þar kemur fram að vonast sé til að appið muni koma að góðum notum við smitrakningu og þegar tilfallandi hópsýkingar koma upp í kjölfar afléttingar aðgerða og takmarkana.

Virkar ekki að leita að appinu eftir nafni

Á miðnætti í gær hafði appinu verið halað niður í 108.029 tæki. Af þeim tækjum ganga rúmlega 60 þúsund fyrir iOS-stýrikerfi og tæplega 48 þúsund fyrir Android-stýrikerfi.

Fyrstu útgáfu appsins fylgdu smávegis hnökrar, fyrst og fremst minniháttar útlitsgallar í Android-útgáfunni, sem voru lagaðir með uppfærslu.

Margir sem leita að appinu á Google Play Store hafa rekið sig á að appið kemur ekki upp við nafnaleit. Ekki er vitað hvað veldur því en unnið er að úrbótum. Þangað til er auðveldast að nálgast appið á COVID-19-vefsíðu landlæknis og almannavarna eins og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir nefndi á upplýsingafundi fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert