Þrír einstaklingar hafa náð að komast úr öndunarvél á Landspítalanum með góðum árangri, að því er fram kom í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, á fundi almannavarna í dag. Ellefu eru nú á gjörgæsludeild spítalans með COVID-19, sem kórónuveiran veldur, þar af átta í öndunarvél.
Páll sagði það mikið inngrip að fara í öndunarvél, en það eitt væri ekki hættulegt heldur væri það undirliggjandi ástæðan sem væri hættuleg. Í þessum tilfellum útbreidd lungnabólga. Innlögn á gjörgæslu vegna COVID-19 þýddi að ástand sjúklings væri alvarlegt.
Tæplega 1.000 einstaklingar eru í eftirliti á göngudeild COVID en þónokkrir af þeim stefna í innlögn, að sögn Páls. Hann vonast þó til að hægt verði að snúa þeirri þróun við áður en til þess kemur. Fyrirtæki sem heitir Sidekick Health er að þróa smáforrit sem hægt verður að nota við eftirlit á deildinni, en það er enn í prófunum.
30 starfsmenn spítalans eru smitaðir af veirunni og eru í einangrun, en 110 í sóttkví. Töluvert hefur því fækkað í hópi starfsmanna í sóttkví. Páll ítrekaði mikilvægi þess að semja við hjúkrunarfræðinga og sagði ánægjulegt að til stæði að funda í kjaradeilunni á morgun.
Þá sagði Páll að á meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði einhvers staðar í heiminum og bóluefni væri ekki til þyrftu yfirvöld og heilbrigðiskerfið að vera í viðbragðsstöðu. Við sem samfélag yrðum að hafa varann á og það gæti orðið áskorun. Það væri því mikilvægt að huga að andlegri heilsu og sýna hvert öðru kærleika. Athafnir hver einstaklings skiptu máli.
Þá vildi Páll koma á framfæri ábendingu frá barnaspítalanum um að það væri ekki ástæða til að bíða með hefðbundnar bólusetningar barna meðan á faraldrinum stæði.