Greiðslufrestir, lækkuð gjöld, fjölgun atvinnutækifæra og aukin fjárveiting til framkvæmda eru á meðal þeirra aðgerða sem Akraneskaupstaður kynnti í dag til viðspyrnu vegna COVID-19. Aðgerðirnar eru fjórtán talsins og skiptast í þrjá meginhluta, varnir, vernd og viðspyrnu. Heildarumsvif þeirra nema 3.380 milljónum króna.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir að bærinn sé vel undir það búinn að takast á við efnahagslegt áfall sem þetta.
„Akraneskaupstaður hefur á undanförnum árum lagt mikið upp úr því að vera með vel rekið sveitarfélag. Við skuldum lítið. Skuldaviðmiðið okkar er 27% sem má að hámarki vera 150%. Við eigum tvo milljarða af handbæru fé.“
Akraneskaupstaður stendur nú í miklum fjárfestingum sem hófust áður en kórónuveiran fór að breiða úr sér hérlendis.
„Við erum í metfjárfestingu núna á þessu ári sem voru þegar ákveðnar. Fjárfestingum upp á 1.500 milljónir og ætlum að gefa enn frekar í. Við erum að undirbúa enn frekari aðgerðir og ætlum að kynna þær eftir páska og munum þá tilkynna frekari fjárfestingar til þess að verja störf í samfélaginu,“ segir Sævar.
Samstaða hefur ríkt innan bæjarstjórnar Akraness um aðgerðirnar en þær má finna hér að neðan: