Íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær úr COVID-19. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Þar segir að tveir séu sýktir af COVID-19 og þrír heimilismenn séu í einangrun og bíði niðurstöðu sýnatöku.
Fimm íbúar eru í sóttkví án einkenna. Meirihluti fastra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu er í einangrun, þar af fimm með staðfest smit. Aðrir fastir starfsmenn utan þriggja eru í sóttkví og er heimilinu því sinnt nær eingöngu af fólki úr bakvarðasveit eða öðrum deildum stofnunarinnar.
Liðsauki hefur þegar borist úr bakvarðasveit og von er á fleirum með þyrlu Landhelgisgæslunnar seinna í dag ef veður leyfir.
„Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vottar aðstandendum samúð. Starfmönnum og heimilisfólki óskum við skjóts bata og samfélaginu þökkum við aðstoð og velvilja. Einnig þökkum við fólki sem boðist hefur til að starfa á stofnuninni sem hluti af bakvarðasveit.“