Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, spurði á upplýsingafundi almannavarna í dag hvort helgin hefði ekki bara verið ágætis æfing hjá landsmönnum sem hafa verið beðnir að halda sig heima um páskana.
„Eigum við ekki að slaka á um páskana?“ spurði hann jafnframt, en æfingin var greinilega nauðsynleg að mati Víðis sem benti á að björgunarsveitir björguðu um 100 Íslendingum um helgina sem höfðu lent í ógöngum í slæmu veðri. „Er þetta ekki bara komið gott?“ sagði hann og hvatti fólk til að slaka á heima um páskana og halda matarboð með vinum á fjarfundi. „Njótum návista með okkar nánustu, höldum áfram að vera ábyrg og þá tekst okkur að komast í gegnum þetta,“ bætti hann við.
Ekki er skynsamlegt að bjóða stórfjölskyldunni í mat um páskana, ef í þeim hópi er fólk í áhættuhópi. Því fleiri sem koma saman þeim mun meiri hætta er á því að smit komi upp, að sögn Víðis, sem bætti við að páskarnir yrðu skrítnir, eflaust þeir skrítnustu sem við hefðum lifað.
Hann hvatti fólk einnig til að halda sig heima við ef það fyndi fyrir einkennum.