Malaríulyfið Chloroquine, sem lyfjafyrirtækið Alvogen keypti á Indlandi handa íslensku þjóðinni til meðferðar við kórónuveirunni, kom til landsins klukkan eitt í dag og er komið í vöruhús.
„Það er búið að taka svolítinn tíma að koma þessu út úr Indlandi og heim en það tókst loksins,“ segir Guðrún Ýr Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri yfir sölu Alvogen á Íslandi. Um tvær vikur tók fyrir Alvogen að tryggja sér lyfið.
Aðspurð segir Guðrún að það sé Landspítalans að ákveða hvenær hann taki lyfjabirgðirnar í notkun en um er að ræða 50 þúsund pakka af lyfinu sem duga til meðhöndlunar á 25 þúsund sjúklingum. Þangað til sá tími kemur er lyfið geymt í vöruhúsi.
Nú þegar er blanda malaríulyfsins Chloroquine (Hydrochloroquine) og sýklalyfsins Azithromycin (Zithromax) notuð hérlendis til þess að takast á við COVID-19 en rannsóknin sýnir að blanda malaríulyfsins Chloroquine (Hydrochloroquine) og sýklalyfsins Azithromycin (Zithromax) hafi góða virkni gegn COVID-19-sjúkdómnum.
Í mars greindi mbl.is frá því að Alvogen hefði sótt um leyfi til að framkvæma stórar klínískar rannsóknir á þeirri lyfjablöndu sem og öðrum lyfjablöndum. Þær rannsóknir yrðu gerðar á 200 einstaklingum. Spurð hvort enn standi til að framkvæma slíka rannsókn segir Guðrún:
„Við erum bara enn að skoða hvaða möguleikar eru í því en við erum spennt fyrir því.“
Þau lyf sem eru talin líklegust til að skila árangri í baráttunni við veiruna eru Chloroquine og Hydroxychloroquine, eyðnilyfið Kaletra og svo Remdesevir sem var þróað af Gilead Science gegn ebóluveirunni. Indland er stærsti framleiðandi Hydroxychloroquine og hafa indversk stjórnvöld bannað útflutning á lyfinu svo þeir geti notað það fyrir sína eigin þjóð. Alvogen óttaðist að bann yrði einnig sett á útflutning á Chloroquine og því yrði næsta ómögulegt að nálgast lyfið.
Í síðustu viku greindi mbl.is frá því að notkun lyfsins hefði verið hætt á sjúkrahúsinu í Gautaborg eftir að í ljós komu alvarlegar aukaverkanir.