Mikil ólga er í hópi þeirra sem vinna að minjavörslu og fornleifarannsóknum, samkvæmt heimildum, vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að úthluta Björgun athafnasvæði við Þerneyjarsund.
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur ræddi tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna nýs iðnaðarsvæðis í Álfsnesvík og tillögu að deiliskipulagi nýs iðnaðarsvæðis á sama stað á fundi sínum 1. apríl. Málið var afgreitt og því vísað til borgarráðs sem samþykkti það daginn eftir, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við HÍ, vann greinargerð um menningar- og búsetulandslag fyrir Minjastofnun Íslands. Hann bendir á að Ísland hafi fullgilt Evrópska landslagssamninginn 4. janúar 2020 og tók hann gildi 1. apríl.
„Þar með hafa íslensk stjórnvöld gengist undir ákveðin gildi varðandi verndun landslags,“ sagði Orri. Eitt af dæmunum sem nefnd eru um menningarlandslag á höfuðborgarsvæðinu í greinargerðinni er Þerneyjarsund þar sem var ein aðalkauphöfn landsins á 14. og 15. öld.