„Nú kemur fram hver lukkuriddarinn á fætur öðrum og segir kjarasamninga heilaga og frekar verði ekki gengið á réttindi launafólks, en nú sé tími samstöðu.“ Þetta skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á Facebook þar sem hann fer yfir hugmynd sína og Vilhjálms Birgissonar um að lækka tímabundið mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði.
Ragnar segir að hugmyndin hafi verið háð þeim skilyrðum að vísitaln yrði að vera undir eða jöfn 481,54 stigum í júní 2020 eða samkvæmt verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Ef hún færi yfir þau mörk félli samkomulagið úr gildi og fyrirtæki greiddu iðgjald að fullu.
„Við settum líka þau skilyrði fyrir því að þessi leið yrði skoðuð að stjórnvöld kæmu að borðinu með frystingu á vísitölu til verðtryggðra lána, bann við 40 ára verðtryggðum lánum og frumvarp um hlutdeildarlán. Með þessu vildum við tryggja kaupmátt, verja heimilin og mögulega bjarga nokkur hundruð störfum í leiðinni,“ skrifar Ragnar.
„Niðurstaðan varð að þessari hugmynd var alfarið hafnað innan veggja ASÍ og fékk ekki frekari umræðu. Ekki frekar en frestun á launahækkunum sem gjarnan gleymist að lagt var fram líka og varðhundar réttinda launafólks gleyma gjarnan að nefna að hafi verið til umræðu líka.“
Ragnar segir einhverja þá lukkuriddara sem stigið hafa fram bera ábyrgð á svikum við launafólk og heimilin eftir hrun. Það sé fólkið sem beri ábyrgð á því að launahækkunum var frestað eftir hrun og „verðbólgunni var sleppt lausri á heimilin með skelfilegum afleiðingum sem fólk er enn að takast á við í dag,“ skrifar Ragnar.
„Þessir svikarar við launafólk lýðskruma nú úr sér raddböndin af réttlætiskennd gegn hugmyndum sem snúa fyrst og síðast um að verja heimilin, störfin og kaupmáttinn. Nákvæmlega því sem fórnað var í hruninu,“ skrifar Ragnar og útskýrir málin:
„Til að fólk átti sig á stærðunum þá kostar 3 mánaða eftirgjöf á 3,5% iðgjaldi í lífeyrissjóð, 40 ára einstaklings með 650 þúsund í mánaðarlaun, 772 kr. í lífeyrisréttindi en 4.300 kr. í kaupmætti ef hann rýrnar um 1%. Samanborið við hrunið varð 15% kaupmáttarrýnun því 64.500 kr.“