Ró í hjólabúnaðinum var af rangri stærð

Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur gefið út bráðabirgðaskýrslu vegna flugslysins er varð á flugvél Icelandair TF-FIA, með 166 manns innanborð hinn 7. febrúar, þegar lendingarbúnaður gaf sig við lendingu með þeim afleiðingum að flugvélin endaði á hægri vængnum.

Samhliða bráðabirgðaskýrslunni er gefin út tillaga í öryggisgátt sem beint er til Icelandair og Cabo Verde Airlines. Skýrslan er gefin út á ensku þar sem margir þeir aðilar sem koma að rannsókn málsins eru ekki íslenskir.

Tengistykki hjólastells gaf sig

Rannsókn nefndarinnar stendur þó enn yfir og það sem kemur fram í bráðabirgðaskýrslunni gæti því breyst. Í skýrslunni er því slegið föstu að hægri lendingarbúnaður vélarinnar hafi gefið sig stuttu eftir lendingu vegna bilunar í tengistykki milli hliðarstoðar og aðalstoðar hjólastells (e. failure of swivel attachment to main strut).

Flugvélin er 20 ára gömul en skipt var um lendingarbúnað í reglubundinni skoðun í Kanada 19. nóvember og var hann því nýr. Lendingarbúnaðurinn hafði verið yfirfarinn á verkstæði í Miami í Bandaríkjunum.

Þarf að rannsaka af hverju róin var of stór

„Bráðabirgðaniðurstaðan er sú að róin sem að var sett á þetta tengistykki í þessu yfirhali (e. overhaul) í Kanada er af rangri stærð. Í þessu yfirhali þá var unnið við þetta tengistykki og það þurfti að fjarlægja tæringu og þar af leiðandi sverfa úr því,“ segir Ragnar Guðmundsson, hjá rannsóknanefnd flugslysa, í samtali við mbl.is og bætir við:

 „Þá verður þvermálið á skrúfganginum í raun minna og þá þarftu í raun að fá sérstaka ró af annarri stærð sem er minni. Það er staðfest að róin sem var notuð var of stór. En hvað varð til þess er það sem við höldum áfram að rannsaka.“

Þrjár flugvélar til viðbótar með nýtt hjólastell frá sama verkstæði

Einnig þarf að rannsaka hvort þetta hafi áhrif á fleiri flugvélar. Vitað er af fjórum flugvélum sem fengu ný hjólastell sem höfðu fengið yfirhalningu á verkstæðinu í Miami. Ein af þeim er flugvélin TF-FIA og tvær til viðbótar sem eru í eigu Icelandair. Auk þeirra er ein í eigu flugfélagsins Cabo Verde Airlines.

Það átti að gera úttekt á verkstæðinu í lok mars en það fór forgörðum út af ástandinu sem er í heiminum í dag vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þannig að við drifum okkur að gefa út bráðabirgðaskýrslu með þeim tilmælum að það þyrfti að skoða þessar þrjár flugvélar. Síðan kemur í ljós hvort það þurfi að útvíkka tilmælin eitthvað frekar,“ bætir Ragnar við.

Bráðabirgðaskýrslan

Tillaga til Icelandair og Cabo Verde Airlines

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert