„Við sjáum 30% til 40% aukningu milli ára hjá okkur,“ segir Haraldur A. Bjarnason, framkvæmastjóri Auðkennis, um fjölda þeirra sem nýta sér rafræn skilríki. Segir hann jafnframt að rekja megi aukningu til fjölgunar notenda auk ástandsins sem skapast hefur sökum kórónuveirunnar.
Alls eru nú nær 240 þúsund einstaklingar með rafræn skilríki hér á landi. Þá benda tölur Auðkennis til þess að um 90% einstaklinga á aldursbilinu 25 ára til 74 ára nýti sér þjónustu fyrirtækisins.
Að sögn Haraldar hefur núverandi ástand orðið til þess að einstaklingar reyni eftir fremsta megni að nýta sér stafræna þjónustu.
„Þetta er auðvitað mjög mikið notað og sífellt fleiri sem nýta sér þjónustuna. Kórónuveiran og þróunin síðustu ár hefur orðið til þess að stafræn þjónusta eru miklu meira notuð,“ segir Haraldur, en rafræn skilríki geta nýst þegar þjónusta er sótt á netinu.