Varðskipið Þór lónaði í gærdag á Ísafjarðardjúpi, en í öryggisskyni hefur skipið verið við Vestfirði síðustu tvær vikur. Síðdegis í gær var vindur í Djúpinu 50-60 hnútar og skyggni sama og ekkert, en skjól og lítill sjór í mynni Jökulfjarða og nákvæmlega þar var Þór.
„Við erum til taks og á slíku er þörf. Síðustu daga hefur verið ófært bæði um landveg og í lofti hingað vestur. Eina færa leiðin er á sjó,“ segir Halldór B. Nellett skipherra í Morgunblaðinu í dag.
Á laugardag fór skipið inn til Ísafjarðar að sækja sýni vegna kórónuveirunnar sem voru svo flutt á Arngerðareyri innst í Djúpinu. Þar sigldi Halldór skipi sínu eins nærri landi og komist varð. Svo fór mannskapur á léttabát að bryggju þar sem björgunarsveitarmenn tóku á móti sýnunum, sem síðan voru flutt áfram suður til Reykjavíkur til frekari rannsókna.