Andlát: Kjartan L. Pálsson

Kjartan Lárus Pálsson.
Kjartan Lárus Pálsson.

Kjartan Lárus Pálsson, fararstjóri og blaðamaður lést á Landspítalanum síðastliðinn föstudag, 3. apríl, áttræður að aldri.

Kjartan fæddist í Keflavík 6. október 1939, sonur þeirra Páls Ebenesers Sigurðssonar og Ingibjargar Bergmann Eyvindsdóttur. Var elstur þriggja systkina, sem bæði lifa bróður sinn. Eftir að námi við Melaskólann í Reykjavík lauk réð Kjartan sig á togara. Sextán ára munstraði hann sig á norskt farskip og sigldi til Evrópuhafna, Asíu og suður fyrir Afríku. Tvítugur hætti hann svo til sjós, kom í land og stofnaði fjölskyldu. Gerðist þá strætisvagna- og leigubílstjóri en mál þróuðust þannig að hann hellti sér út í blaðamennsku. Kom þar til að Kjartan var mikill áhugamaður um íþróttir og snemma á sjöunda áratugnum hóf hann að skrifa íþróttafréttir fyrir Vísi undir skammstöfunum -klp-. Kjartan starfaði sem blaðamaður í um 25 ár og skrifaði á löngum ferli sínum ýmist íþróttafréttir og almennar fréttir fyrir Vísi, Tímann og DV.

Kjartan var flakkari í eðli sínu og svo atvikaðist að hann gerðist fararstjóri, fyrst samhliða blaðamannsstarfinu en síðan tók fararstjórn annað yfir. Kjartan vann fyrst hjá Samvinnuferðum-Landsýn og síðar hjá Úrvali-Útsýn. Hann starfaði við fararstjórn til að mynda á Spáni, á Írlandi, Hollandi og Taílandi.

Kjartan fékk golfbakteríuna þegar hann tók fyrst þátt í firmamóti blaðamanna árið 1969 og stundaði þá íþrótt af kappi eftir það. Hann var liðsstjóri unglingalandsliðs karla í golfi árið 1973 og á árunum 1979-1986 var hann einvaldur og liðstjóri karlalandsliðsins í golfi. Hann átti um tíma Íslandsmet yfir fjölda af holum í höggi og átti því sæti í frægðarhöll Einherjaklúbbsins, hvar hann gegndi formennsku um árabil. Þá var Kjartan gjarnan fararstjóri í golfferðum Íslendinga erlendis.

Kjartan lætur eftir sig eiginkonu, Jónínu S. Kristófersdóttur. Börn þeirra eru Dagbjört L. Kjartansdóttir Bergmann og Jón Bergmann Kjartansson, sem tók sér listamannsnafnið Ransu. Barnabörnin eru fimm og barnabarnabörnin þrjú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert