Ragnhildur Þrastardóttir
„Það er mikilvægt að hafa í huga að börn á ofbeldisheimilum hafa ekkert val,“ sagði Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, á blaðamannafundi almannavarna í dag. Hún fór þar yfir það hvernig þolendur og gerendur heimilisofbeldis geti leitað sér aðstoðar en hætta er á að heimilisofbeldi verði bæði tíðara og hættulegra á tímum sem þessum.
Konur sem koma í Kvennaathvarfið standa oftast í þeirri trú að börn þeirra verði ekki fyrir áhrifum af því ofbeldi sem þær verða fyrir innan heimilisins ef það beinist ekki að barninu sjálfu.
„Oft er það kannski eins og það sé það verkefni sem foreldrar í ofbeldissamböndum hafi leyst í bestu sameiningu, að telja sér trú um að börnin verði ekki fyrir áhrifum af ofbeldinu ef ofbeldið beinist ekki að þeim sjálfum. Þessi trú er röng,“ sagði Sigþrúður.
Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að það að alast upp á ofbeldisheimilum hafi gríðarleg áhrif á börnin.
„Ekki bara í nútíð […] heldur sýna gríðarmargar rannsóknir að börn sem alast upp á ofbeldisheimilum eru miklu líklegri til að lenda í erfiðum aðstæðum síðar á lífsleiðinni en þau börn sem alast ekki upp á slíkum heimilum,“ sagði Sigþrúður.
Ýmislegt getur hjálpað börnum að halda sig á beinu brautinni en þar ber helst að nefna það að þau hafi einhvern að leita til sem þau treysta. Eins og ástandið er núna hafa börn færri til að leita til.
„Það mikilvægasta sem við getum gert er að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir það að börn dvelji á ofbeldisheimilum.“