Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur ákveðið fresta því til haustsins að fara fram með nokkur frumvörp, þar á meðal frumvörp um hálendisþjóðgarð og þjóðgarðastofnun. „Líf okkar allra snýst nú um að takast með einum eða öðrum hætti á við kórónuveiruna.“
Þetta kemur fram í færslu sem ráðherrann birti á Facebook.
Hann segir að markmið stjórnvalda og þingsins sé skýrt. „Að tryggja að heilbrigðiskerfið geti staðist það mikla álag sem það er undir og jafnframt að bregðast við fordæmalausum aðstæðum í efnahagslífinu.
Í ljósi þessa hafa nú öll ráðuneyti ákveðið að fækka þeim þingmálum sem átti að leggja fyrir Alþingi í vor og sett þau mál sem varða þessar aðstæður í algeran forgang. Ég mun fresta því til haustsins að fara fram með nokkur frumvörp, þar á meðal frumvörp um hálendisþjóðgarð og þjóðgarðastofnun,“ skrifar Guðmundur.
Hann bendir á að hálendisþjóðgarður verði stærsti þjóðgarður í Evrópu og með honum myndu ein stærstu óbyggðu víðerni sem finnast í Evrópu fá vernd. „Stofnun þjóðgarðsins myndi fela í sér einstakt tækifæri fyrir Ísland og yrði ómetanleg landkynning. Ég hyggst verja tímanum fram á haust til að taka enn frekara samtal um þessi þýðingarmiklu mál sem varða okkur öll og ekki síst komandi kynslóðir sem erfa munu landið.
Auk þessara þingmála hyggst ég fara fram með tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun og frumvarp um breytingar á lögum um úrgangsmál á haustþingi. Ég á síðan von á því að kynna tvö frumvörp í vor, en það er heildarendurskoðun á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) sem tengist vindorku. Þessi mál fara því öll á þingmálaskrá haustsins,“ segir Guðmundur.