Gera ráð fyrir því að búnaðurinn uppfylli kröfur

Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Landspítalanum.
Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Landspítalanum. Eggert Jóhannesson

Gert er ráð fyrir því að 17 tonn af lækningabúnaði sem eru á leið hingað til lands vegna COVID-19 uppfylli alla staðla en Landspítali hefur þó ekki áður verslað við þá birgja sem reiða búnaðinn fram. Þeta segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Landspítalanum. 

Dæmi eru um að þjóðir hafi þurft að hafna búnaði frá Kína þar sem hann uppfyllti ekki kröfur. 

„Þetta á að uppfylla okkar kröfur en svo verður það bara að koma í ljós. Pantanirnar eru þess eðlis að búnaðurinn ætti að uppfylla okkar kröfur, við höfum ekkert í höndunum sem fær okkur til að efast um það,“ segir Jón. 

Skoða aðra ferð til Kína

Um nokkra birgja er að ræða en Landspítalinn verslar almennt ekki beint við Kína. 

„Þegar það er ekki COVID-19 bjóðum við út og við erum yfirleitt ekki að flytja sjálf. Þetta er öðruvísi en venjulega.“

Spurður hvort sautján tonn af búnaði séu ekki nokkuð mikið segir Jón: „Sumt af þessu er fyrirferðarmikið og þungt.“

Í skoðun er að fara í aðra ferð til Kína í næstu viku til að sækja lækningabúnað en slíkt er í stöðugri skoðun, að sögn Jóns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert