Aron Þórður Albertsson
Ef ekkert verður að gert gæti svo farið að um helmingur ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi yrði gjaldþrota. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustu (SAF).
Að sögn hans fer staðan versnandi dag frá degi. Fátt bendi til annars en að næstu mánuðir verði tekjulausir. „Almennt sjá fyrirtækin fram á algjört tekjuhrun næstu þrjá mánuði hið minnsta. Raunhæft séð er ekki hægt að ná tekjuháönn fyrr en sumarið 2021,“ segir Jóhannes og bætir við að til að bregðast við ástandinu þurfi að grípa til afgerandi aðgerða. Fyrsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar hafi aflétt ákveðinni óvissu, sem þó verði að teljast skammgóður vermir.
„Að hluta til má segja að óvissan haldi áfram enda er um frestun að ræða. Fyrirtæki sem ekki á peninga til að greiða opinber gjöld og skatta í dag mun ekki eiga neina möguleika á því að vera í betri stöðu eftir þrjá mánuði. Það liggur því alveg ljóst fyrir út frá stöðunni að fella þarf niður eitthvað, og í raun eins mikið og hægt er, af opinberum gjöldum og sköttum,“ segir Jóhannes í Morgunblaðinu í dag.