Innrennsli í miðlanir Landsvirkjunar á hálendinu hefur verið mjög slakt í vetur, enda hefur tíðin verið mög óhagstæð.
Á Þjórsársvæði hefur veturinn verið kaldur og mjög þurr og innrennsli með minnsta móti, segir í frétt á heimasíðu Landsvirkjunar. Yfirborð Þórisvatns er nú rúmum fimm metrum lægra en það var í byrjun apríl í fyrra.
Við Blöndu hefur staðan verið lítið betri. Vatnsyfirborð Blöndulóns er nú um einum metra lægra en það var á sama tíma í fyrra. Innrennsli á Austurlandi hefur komið best út en hefur samt verið undir meðallagi, segir Landsvirkjun. Vatnsyfirborð þessa mikla lóns er nú um átta metrum lægra en það var í byrjun apríl í fyrra.
Niðurdráttur miðlunarlóna hófst upp úr miðjum október og hefur verið eindreginn síðan. Vetrarblotar hafa ekki náð upp á hálendið og staða miðlunarforða í lok vetrar er undir meðallagi. Staðan nú um 700 GWh verri en á sama tíma í fyrra, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.