Í gær var tilkynnt að ríkið myndi setja fjóra milljarða króna í aukið hlutafé í Isavia með því skilyrði að þeim fjármunum yrði ráðstafað í innviðaverkefni á Keflavíkurflugvelli strax á þessu ári. Er þessu ætlað að koma til móts við tekjufall vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og efnahagslegra áhrifa þess á Suðurnesjum, en þar mælist atvinnuleysi nú mest á landinu, eða um 15,4%.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir í samtali við mbl.is að þetta séu jákvæðar fréttir fyrir svæði sem hafi orðið hvað verst úti efnahagslega vegna áhrifa af faraldrinum. „Þetta er gott skref í rétta átt og okkur líst náttúrlega mjög vel á þetta,“ segir hann. Sveitarfélagið ætlar einnig að setja kraft í framkvæmdir á þessum samdráttartímum, en samþykkt var í bæjarráði Reykjanesbæjar í morgun að setja aukalega 400-500 milljónir í framkvæmdir á þessu ári, en áður hafði verið miðað við 700 milljónir.
Kjartan segir að skýrt afmarkaðar aðgerðir sem þessi skipti miklu máli og séu ákveðið svar við því sem horft hafi verið til, en að hann vonist eftir frekari aðgerðum inn á svæðið. Ítrekar hann að áfram séu fleiri verkefni á höndum ríkisins sem þurfi að ráðast í á svæðinu. Nefnir hann Suðurnesjalínu 2, tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og uppbyggingu á nýrri heilsugæslu á Suðurnesjum auk þess sem laga þurfi núverandi húsnæði. Nefndi Kjartan þessi atriði áður í samtali við mbl.is í síðustu viku.
Tekur Kjartan fram að á Suðurnesjum sé aðeins ein heilsugæslustöð fyrir 27 þúsund manna svæði. „Það er löngu tímabært að reisa aðra heilsugæslu,“ segir hann. „Þetta eru allt framkvæmdir sem standa beint að ríkinu og við myndum vilja sjá ríkið fara í.“
Þrátt fyrir þessa innspýtingu segir Kjartan að samdráttur í tekjum sveitarfélaga blasi við. Þetta sé nokkuð sem skoða þurfi á þessu stigi sem og áhrif af tekjumissi fyrir jöfnunarsjóð sveitarfélaga. „Þetta kemur á sama tíma og búast má við að þjónusta sveitarfélaga þurfi að aukast, til dæmis í velferðarþjónustu,“ segir Kjartan. „Þetta eru háar fjárhæðir og ég veit að ríkið er að skoða þessi mál.“ Telur hann nauðsynlegt að ríkið komi með einhverjum hætti og bæti sveitarfélögum upp þennan tekjumissi svo þau geti sinnt sínum verkefnum. Þá segir hann einnig mikilvægt að löggjafinn skoði breytingar á lögum um fjármál sveitarfélaga yfir tímabil sem þetta þar sem útséð er að halli á rekstri þeirra geti orðið meiri og yfir lengra tímabil en núna er leyft.
Kjartan segir að framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli skipti miklu fyrir svæðið. Þannig skapi hvert starf í verklegum framkvæmdum afleidd störf í samfélaginu, bæði í þjónustu og svo aðkomu annarra fyrirtækja að framkvæmdunum.
Í tilkynningu ráðuneytisins í gær kom fram að annars vegar eigi að ráðast í verkefni sem fyrirhuguð voru á yfirstandandi ári en hefði þurft að fresta vegna þess tekjufalls sem félagið hefur orðið fyrir og hins vegar flýtingu á öðrum mannaflsfrekum framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á árunum eftir 2023. Áætlaður fjöldi starfa vegna framkvæmda Isavia er á bilinu 50-125 fram á mitt ár 2021.
Sem fyrr segir samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar í morgun að bæta 400-500 milljónum við framkvæmdir á áður samþykktri fjárhagsáætlun. Kjartan tekur þó fram að framkvæmdir við nýjan grunnskóla séu alfarið fyrir utan þessar tölur, en það er heildarverkefni upp á um fimm milljarða.
Samþykkt bæjarráðs í morgun er þó með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnarráðuneytisins og eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, en Kjartan segist ekki eiga von á öðru en að samþykkið fáist. Þegar því verður formlega lokið eftir páska verða allir vegir færir, segir hann, en sérstaklega er horft til mannaflsfrekra verkefna, svo sem lagningar og viðhalds göngustíga í bænum og fjölgunar starfa fyrir ungt fólk í sumar. Segir Kjartan að fólk á aldrinum 17-25 ára hefði venjulega fengið starf á flugvellinum en að í ár sé ljóst að ekki verði ráðið mikið inn af sumarstörfum. Sé þessi ráðstöfun því til að mæta þessum fjölda að einhverju leyti. Spurður út í hversu mörg störf um sé að ræða í heild segir hann að það eigi betur eftir að koma í ljós, en þau hlaupi á tugum.