Nýtt íbúðahverfi mun rísa á Álftanesi

Breiðamýri. Áfanganum fagnað og þess gætt að hafa nægt bil …
Breiðamýri. Áfanganum fagnað og þess gætt að hafa nægt bil milli manna. Ljósmynd/Garðabær

Framkvæmdir við uppbyggingu fjöl- býlishúsabyggðar í Breiðamýri á Álftanesi eru komnar af stað.

Garðabær hefur gert verksamning við verktakafyrirtækið Loftorku ehf. um gatnagerðarframkvæmdir í kjölfar útboðs sem nýverið fór fram.

Af því tilefni komu bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og embættismenn á tækni- og umhverfissviði Garðabæjar saman á staðnum ásamt fulltrúum verktakans til að fagna þessum merka áfanga, segir í frétt á heimasíðu Garðabæjar.

Í lok janúar voru lóðir við Breiðamýri auglýstar til sölu og nú standa yfir viðræður við þá aðila sem hafa boðið í allar lóðirnar. Samkvæmt deiliskipulagi munu allt að 252 íbúðir verða byggðar í Breiðamýri við þrjár götur sem hafa hlotið heitið Hestamýri, Grásteinsmýri og Lambamýri.

Við hverja götu verða þrjár fjölbýlishúsasamstæður á 2-3 hæðum með íbúðum sem munu allar liggja að opnum grænum svæðum sem teygja sig inn á milli húsanna. Eftir miðju svæðinu mun renna lækur á milli grunnra settjarna þangað sem ofanvatni verður beint með sjálfbærum lausnum. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka