Lögreglustjórinn á Suðurnesjum mun óska eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir karlmanni á sextugsaldri sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá 2. apríl vegna andláts konu í heimahúsi í umdæminu.
Stöðugt er unnið að rannsókn málsins, en grunur leikur á um að andlátið hafi borið að með óeðlilegum hætti, að því er segir í tilkynningu.
Maðurinn er sambýlismaður konunnar en var ekki handtekinn fyrr en fjórum dögum eftir að tilkynnt var um andlátið, þegar niðurstaða réttarmeinafræðings lá fyrir, en þar kom fram að sterkur grunur léki á að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti.
Þetta er annað tveggja andláta sem lögreglan hefur til rannsóknar þar sem grunur er um heimilisofbeldi. Karlmaður á þrítugsaldri var á mánudagskvöld úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. apríl vegna rannsóknar á andláti konu á sextugsaldri í Hafnarfirði aðfaranótt mánudags.
„Það er alveg ljóst að þegar andlát ber að með grunsamlegum hætti inni á heimili og grunur leikur á um að ofbeldi hafi verið beitt, þá er það ekkert annað en heimilisofbeldi,“ sagði Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is í gær.