Flugvél Icelandair lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan hálfsjö í kvöld með 17 tonn af lækningabúnaði frá Sjanghæ í Kína. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.
Um var að ræða leiguflug á vegum Icelandair Cargo og Loftleiða Icelandic í samstarfi við aðila í heilbrigðisgeiranum á Íslandi og DB Schenker. Vélin lagði af stað um hádegisbil í gær til Sjanghæ og tók ferðalagið rúmar 12 klukkustundir. Stoppað var í borginni í sjö tíma meðan vélin var fermd, en ferðalagið heim tók 13 og hálfa klukkustund. Ellefu manna áhöfn var í fluginu: sex flugmenn, þrír hlaðmenn og tveir flugvirkjar.
Að sögn Ásdísar gekk ferðalagið vel þrátt fyrir að um langt flug væri að ræða.