Andlát: Tryggvi Páll Friðriksson

Tryggvi Páll Friðriksson
Tryggvi Páll Friðriksson

Tryggvi Páll Friðriksson, frumkvöðull í björgunarstörfum og listmunasali, lést á heimili sínu í Kópavogi 7. apríl sl. í kjölfar stuttra veikinda, 75 ára að aldri.

Tryggvi Páll fæddist í Reykjavík 13. mars 1945 og ólst þar upp, lengst af á Ásvallagötu 17. Foreldrar hans voru Friðrik Pálsson lögregluvarðstjóri og Margrét Tryggvadóttir, saumakona og aðstoðarmaður skólatannlækna. Tryggvi útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands 1965.

Hann var verslunarstjóri í Ljósmyndaversluninni Gevafoto, sölumaður hjá Heildvserslun Eggerts Kristjánssonar og framkvæmdastjóri Heildverslunarinnar Skipholts hf. og hjá Efnagerðinni Ilmu hf. Tryggvi rak með félögum sínum Kaupstefnuna sem setti upp ýmsar vörusýningar, m.a. Heimilissýningar í Laugardalshöll í lok níunda áratugarins.

Tryggvi varð skáti 12 ára, gekk til liðs við HSSR, Hjálparsveit skáta í Reykjavík, er hann var 17 ára og var sveitarforingi hennar 1968-73. Tryggvi var formaður LHS, Landssambands hjálparsveita skáta, á árunum 1973-89, beitti sér fyrir stofnun Björgunarskólans 1977, Björgunarhundasveitar Íslands 1980 og margra annarra sveita víðs vegar um landið. Í formannstíð hans var lagður grunnur að mörgum fjáröflunarleiðum sem urðu til þess að styrkja mjög fjárhagsstöðu aðildarsveitanna.

Tryggvi var félagsmálastjóri LHS og Landsbjargar, landssambands björgunarsveita, á árunum 1987-92, varð skólastjóri Björgunarskólans 1987, var umsjónarmaður Björgunar 1990, fyrstu ráðstefnu sinnar tegundar hér á landi, og fyrsti formaður Landsstjórnar björgunarsveita 1989. Hann tók þátt í um 500 aðgerðum björgunarsveitanna um nánast allt land, oft sem stjórnandi.

Tryggvi og Elínbjört Jónsdóttir, eftirlifandi eiginkona hans, vefnaðarkennari og listmunasali, festu kaup á Galleríi Fold við Rauðarárstíg árið 1992 og hafa starfrækt það síðan í félagi við tengdason sinn.

Börn þeirra Tryggva og Elínbjartar eru Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fv. þingmaður, Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans, og Friðrik Tryggvason, varðstjóri á Neyðarlínunni. Barnabörnin eru sjö talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert