Ný og endurbætt vefsíða Hugrúnar geðfræðslufélags fór í loftið á dögunum, en þar er hægt að nálgast upplýsingar um geðheilsu, geðraskanir og úrræði auk leiðbeininga um hvernig má ræða þessi mál við ungt fólk.
„Nú sem aldrei fyrr er sérlega mikilvægt að hlúa að geðheilsu, þekkja helstu einkenni raskana og vita hvernig á að bregðast við. Mikilvægt er því að upplýsingar á síðunni nái til sem flestra,“ segir í tilkynningu, en vefsíðan er aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku.
Í tilefni af opnun vefsíðunnar gedfraedsla.is vilja Hugrún geðfræðslufélag háskólanema, Landssamtök íslenskra stúdenta og Samband íslenskra framhaldsskólanema biðla til foreldra og forráðamanna að ræða geðheilsu við ungmenni, kynna þeim einkenni helstu geðraskana og þau úrræði sem standa til boða á Íslandi.
„Skilaboðin eru skýr: Verum huguð og ræðum um geðheilsu! Til að stuðla að bættri geðheilsu ungmenna á Íslandi er nauðsynlegt að opin umræða sé um geðheilsu heima fyrir auk þess sem tryggja þarf formlega geðfræðslu í skólum.“
Á gedfraedsla.is er hægt að nálgast upplýsingar um geðheilsu, geðraskanir og úrræði. Hluti síðunnar er tileinkaður foreldrum, forsjáraðilum og skólastarfsmönnum og þar eru leiðbeiningar til að opna á umræðu við ungmenni um þessi mál með markvissum hætti og veita þeim geðfræðslu. Slík fræðsla er mikilvæg fyrir ungt fólk og í samfélaginu almennt. Hún getur aukið vitneskju, dregið úr fordómum, dregið úr alvarleika vandans og auðveldað ungu fólki að leita til einhvers sem þau treysta þegar þau upplifa andlega erfiðleika. Hugrún geðfræðslufélag hvetur til opinnar umræðu og þess að fólk nýti leiðbeiningarnar til að veita ungmennum geðfræðslu.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum
erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum
sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið
stondumsaman@mbl.is.