Sextíu prósent færri bílum var ekið út úr höfuðborginni í gær, á skírdag, en á sama degi í fyrra. Fækkunin á miðvikudegi fyrir páska var um 40%. RÚV greinir frá þessu og hefur eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni yfirlögregluþjóni.
Hann segir ljóst að nokkuð margir séu í sumarbústöðum. „Ég held þó að fólk sé að nota bústaðina öðruvísi. Í stað þess að stefna stórfjölskyldunni saman er það kannski frekar þannig að heimilishald flytur sig um stað frá heimili sínu í bústað,“ segir Ásgeir.
Almannavarnir hafa, sem kunnugt er, beint þeim tilmælum til fólks að halda sig heima um páskana. Ferðast innanhúss eins og sagt er. Brugðust fjölmörg stéttarfélög við með því að loka sumarhúsum sínum yfir páskahátíðina. Lýsti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn yfir ánægju sinni með það hve margir hafa fylgt tilmælunum, á blaðamannafundum í dag og í gær.