Rannsókn lögreglu vegna gruns um refsiverð brot konu sem starfaði á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og kom þangað í gegnum bakvarðasveit er í fullum gangi. Þessar upplýsingar, en engar frekari, fengust hjá lögreglunni á Ísafirði. Má hins vegar búast við frekari upplýsingum þegar líða tekur á daginn.
Konan kom inn í gegnum Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra stofnunarinnar. Þrjár leiðir eru fyrir fólk til að bjóða sig fram í bakvarðasveitirnar en fólk getur boðið sig fram við heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið eða við viðkomandi stofnun, eins og var í þessu tilviki.
Konan er grunuð um að hafa falsað skjöl um menntun og starfsskilyrði og þjófnað eða tilraun til þjófnaðar á lyfjum.
Nokkrar ábendingar bárust um meint brot konunnar, að sögn Gylfa.