Konan sem starfaði sem bakvörður í heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík þangað til hún var handtekin í gær, sökuð um að hafa framvísað fölsuðum gögnum og misfarið með lyf, segist vera alsaklaus og hún hafi ekkert að fela. Hún segist jafnframt hafa verið meðhöndluð eins og stórglæpamaður.
Konan heitir Anna Aurora Waage og veitti Mannlífi viðtal sem birtist nú fyrr í dag. Hún hefur ráðið sér lögmann til að stefna Gylfa Ólafssyni, forstjóra Heilbrigðistofnunar Vestfjarða, og lögreglustjóranum á Vestfjörðum.
„Ég lýsi algjörlega yfir sakleysi mínu. Það er bara verið að reyna koma á mig einhverri sök og drulla yfir mig,“ segir hún í viðtalinu. Hún fullyrðir að hún hafi sýnt fulla samvinnu við yfirvöld og að lögreglan hafi leitað hjá henni en ekki fundið neitt.
Lögreglumenn hafi í framhaldinu sakað hana um að reyna smita sjálfa sig og aðra af COVID-19 en hún hafi einfaldlega hlegið að þeim ásökunum. Sýni var tekið úr henni og reyndist það neikvætt fyrir sjúkdómnum.
Í yfirlýsingu frá lögmanni hennar sem barst fjölmiðlum í morgun segir að konan hafi við skráningu í bakvarðasveit upplýst yfirboðara sína um menntun og reynslu. Hún hafi um árabil starfað við umönnun og sótt nám við enska skóla og háskóla við sjúkraliðun og „nursing assistant“.
Í viðtalinu við Mannlíf segist konan hafa lært í sínu námi hvernig ætti að nota hlífðarbúnað í heilbrigðistarfi til að verja sjálfa sig og aðra. Þá hafi það sömuleiðis verið rifjað upp áður en bakvarðasveitin var send vestur í Bolungarvík.
„Ég sagði allan tímann frá því að ég væri með erlent próf en ekki íslenskt, sem ætti eftir að meta. Úti er þetta sem sjúkraliðapróf og síðan er ég líka með annað próf sem er ígildi háskólagráðu. Ég tilkynnti það strax á minni umsókn að ég væri með erlend próf og það voru allir meðvitaðir um það enda tilkynnti ég það líka strax við komuna vestur. Það gerði ég um leið og ég mætti og það stóð á öllum plöggum. Það var allt uppi á borðum frá upphafi, ég var alls ekkert að reyna að falsa neitt,“ er haft eftir henni.