Hertar aðgerðir á norðanverðum Vestfjörðum framlengdar

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar á Bolungarvík á Vestfjörðum í …
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar á Bolungarvík á Vestfjörðum í vikunni. Hertar aðgerðir á norðanverðum Vestfjörðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar munu gilda að minnsta kosti til 26. apríl. mbl.is/Árni Sæberg

Hertar aðgerðir á norðanverðum Vestfjörðum gilda að minnsta kosti til 26. apríl. Frá þessu greinir lögreglan á Vestfjörðum en ákvörðunin er tekin af aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum í samráði við sóttvarnalækni. 

Hertar aðgerðir tóku gildi á norðanverðum Vestfjörðum 5. apríl í ljósi nýrra smitrakn­inga á svæðinu. Í aðgerðunum felst að leik- og grunnskólar á norðanverðum Vestfjörðum verða áfram lokaðir. Þó skulu börn á forgangslistum fá vistun á leikskólum og 1. og 2. bekkjum grunnskóla.

Samkomubann miðast við 5 manns, sem á þó ekki við um fjölskyldur sem búa á sama heimili. Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum (>150 fermetrar) er að hámarki 30 á hverjum tíma.

Það er mat aðgerðastjórnar að ofangreindar aðgerðir séu að skila árangri. Enn eru þó að greinast ný smit og allmargir einstaklingar í samfélaginu eru veikir. Það er því afar brýnt að fólk haldi sig heima, haldi samskiptafjarlægð, takmarki ferðir sínar og fylgi leiðbeiningum þessum.

Aðgerðastjórn fundar og metur stöðuna á degi hverjum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert