„Leit var frestað um klukkan hálffimm í dag. Það er búið að leita frá því klukkan þrjú í nótt án árangurs þannig að nú er verið að taka stöðuna varðandi næstu skref og elta þær vísbendingar sem hafa komið fram síðan lýst var eftir henni í morgun,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Leit að Söndru Líf Þórarinsdóttur Long hefur verið frestað til morgundagsins nema nýjar vísbendingar berist lögreglu í kvöld sem þarf að skoða. Samhliða leit lögreglu og björgunarsveita fer fram rannsókn á þeim vísbendingum sem þegar hafa komið fram.
Lögreglan lýsti eftir Söndru Líf í morgun en síðast er vitað um ferðir hennar á fimmtudag. Hún er 27 ára gömul og til heimilis í Hafnarfirði.
Hátt í 200 manns hafa tekið þátt í leitinni síðan hún hófst um klukkan þrjú í nótt að sögn Davíð Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Bíll Söndru fannst á Álftanesi í Garðabæ og hefur leit að henni beinst að því svæði.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar tóku þátt í leitinni ásamt séraðgerðasveit gæslunnar á varðbátnum Óðni. Þá var leitað með flugvél, sæþotum og drónum inn á milli þess sem þyrlurnar voru á lofti. Davíð Már segir að aðstæður í dag hafi verið góðar veðurfarslega séð og þungi í leitinni mikill. Nú sé þó búið að flæða svolítið að og aðstæður til leitar ekki eins góðar.
Sandra er grannvaxin, um 172 cm á hæð og með mjög sítt rauðleitt hár. Hún var klædd í svartar buxur, svartan leðurjakka og hvíta strigaskó. Sandra var með hálsklút (karrígulur og blettatígursmunstraður) og með svartan og gráan klút/hárband í hárinu. Hún hefur til umráða ljósgráan Ford Focus, skráningarnúmer UH828.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Söndru, eða vita hvar hún er niðurkomin, eru vinsamlegast beðnir að hafa tafarlaust samband við lögregluna í síma 112.
Frænka Söndru Lífar, Olga María Þórhallsdóttir Long, birti facebookfærslu fyrr í dag þar sem má sjá mynd af Söndru Líf og myndskeið þar sem sést í hvernig fötum hún var þegar hún fór að heiman.
Fréttin var uppfærð klukkan 18:37.