Öll sýni úr bakvarðasveit neikvæð

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Sýni sem tekin voru úr bakvarðasveit á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík voru öll neikvæð að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. 

Gylfi segir að því sé ekki lengur unnið eftir fyrirkomulaginu sóttkví B, en slíkt fyrirkomulag er viðhaft þegar talin er lítil hætta á smiti en þó þörf á að grípa til ráðstafana. Var unnið eftir því fyrirkomulagi á meðan sýnin voru til rannsóknar. 

Sýnin voru tekin eftir að kona úr bakvarðasveitinni var handtekin, grunuð um að hafa framvísað fölskum gögnum um starfsréttindi sín sem heilbrigðisstarfsmaður og að hafa misfarið með lyf. Konan var látin laus úr haldi að lokinni yfirheyrslu. 

„Allt er fallið í ljúfa löð eins og hægt er miðað við aðstæður,“ segir Gylfi. 

Gylfi segir að lögregla rannsaki nú mál konunnar sem var handtekin. „Við höfum afhent lögreglu ýmis gögn og munum gera það áfram eftir því sem kallað er eftir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert