Var ekki með leyfi frá embætti landlæknis

Alma Möller landlæknir á blaðamannafundinum í dag.
Alma Möller landlæknir á blaðamannafundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Málið sem kom upp á Bolungarvík í gær þar sem kona var sökuð um að starfa í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar á hjúkrunarheimilinu Bergi er tilefni til að fara yfir alla ferla er varða starfsleyfi þeirra sem vinna í heilbrigðisþjónustu.

Þetta kom fram í máli Ölmu D. Möller landlæknis á upplýsingafundi almannavarna. 

Þó að málið sé enn í rannsókn telur Alma mikilvægt að allir hjálpist að við að hindra að fólk sem ekki hefur tilskilin leyfi fari að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn. Það liggur fyrir í málinu að embætti landlæknis sem veitir leyfi hafði ekki veitt konunni nein leyfi og engin slík umsókn var fyrirliggjandi.

Til að koma í veg fyrir slíkt verða stofnanir áfram að fara yfir vottanir og starfsleyfi og af því má ekki gefa neinn afslátt. Héðan í frá mun embætti landlæknis veita heilbrigðisstofnunum aðgengi að starfsleyfaskrá embættisins til að auðvelda stofnunum að koma í veg fyrir annað atvik af þessu tagi.

Falsfréttir eru fylgifréttir faraldra að sögn Ölmu og víðtæk útbreiðsla þeirra getur komið niður á árangri opinberra aðgerða og sóttvarna. Nefnir hún að yfirmaður alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hafi sagt að við séum ekki einungis að glíma við heimsfaraldur veiru heldur heimsfaraldur falsfrétta. Þá skipti öllu máli að hafa ábyrga fjölmiðla og ritstjóra sem vinna samkvæmt siðareglum.

Hún segir mikilvægt að hér á landi séu fjölmiðlamenn meðvitaðir um sína ábyrgð að flytja almenningi traustar fréttir og veita stjórnvöldum aðhald. Án þess væri ómögulegt að standa í þeim aðgerðum sem hefur verið beitt hér á landi því þátttaka upplýsts almennings er grundvallarforsenda fyrir því.

Ráðlegging Ölmu til almennings er að vera áfram á varðbergi gagnvart falsfréttum og leita frekar til fjölmiðla sem eru traustir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert