Leit að Söndru Líf frestað í bili

Sandra Líf Þórarinsdóttir Long sást síðast á skírdag.
Sandra Líf Þórarinsdóttir Long sást síðast á skírdag. Ljósmynd/Lögreglan

Björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar sem voru að leita að Söndru Líf Þórarinsdóttur Long í dag kláruðu flest allir verkefni dagsins í dag um fimmleytið og hefur leit því verið frestað í bili.

Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Áherslan á leit af sjó og úr lofti

„Það voru einhverjir tugir björgunarsveitamanna ásamt öðrum viðbragðsaðilum sem leituðu í dag. Það var mikið leitað af sjó og það voru tvö björgunarskip sem sigldu meðfram strandlengjunni frá Hafnarfirði og út að Reykjanesi. Aðaláherslan var að leita úr lofti með bæði þyrlum og drónum auk þess sem leitað var af sjó á minni bátum og sæþotum,“ segir Davíð.

Aðstæður til leitar voru góðar í dag og gekk vel að fara í öll skipulögð verkefni þrátt fyrir að það hafi verið hvassara í dag en í gær að sögn Davíðs.

Sæþotur hafa verið notaðar við leitina að Söndru Líf.
Sæþotur hafa verið notaðar við leitina að Söndru Líf. Ljósmynd/Aðsend

Lögreglan ákveður framhaldið

Það eru til staðar áætlanir um áframhaldandi leit en hún er í höndum lögreglunnar sem vinnur úr upplýsingum sem hafa safnast saman síðustu tvo daga. Björgunarsveitir ætla að vakta fjöruna á Álftanesi áfram.

Ekki hefur náðst í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vegna leitarinnar síðan í morgun.

Kafarar frá séraðgerðasveit hófu leit snemma í morgun

Kafarar frá séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar tóku þátt í leitinni í dag og byrjuðu þeir klukkan sex í morgun og leituðu til klukkan þrjú í dag, segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi gæslunnar, í samtali við mbl.is.

Þyrla gæslunnar fór svo eftir hádegi og leitaði í um það bil þrjá tíma, í umhverfinu auk þess sem hún fylgdi strandlengjunni suður að Vogum á Vatnsleysuströnd.

Kafarar úr séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar hófu leit snemma í morgun og …
Kafarar úr séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar hófu leit snemma í morgun og þá leitaði þyrlan í þrjá tíma eftir hádegi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert