Um 40% stúdenta við Háskóla Íslands eru ekki komin með sumarvinnu og rúmlega 43% stúdenta munu eiga erfitt með að mæta útgjöldum næsta mánaðar eða segjast ekki geta það.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í tveimur könnunum sem Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent út síðustu vikur. Sú fyrri er frá 22. mars og sú seinni var gerð um tveimur vikum síðar.
Rúm 11% stúdenta við háskólann telja sig ekki geta mætt útgjöldum sínum næstu mánaðamót og sögðu 32% stúdenta sig eiga erfitt með það, þótt þeir gætu það. Af þessu má álykta að 43% stúdenta eru í erfiðri stöðu fjárhagslega strax næstu mánaðamót.
Kannanirnar gefa sömuleiðis vísbendingu um mikla vanlíðan stúdenta, en á skalanum 1-10 eru 53% stúdenta með fjárhagsáhyggjur á stigi 6 eða yfir. Þá bendir síðasta könnunin til að aðeins 6% þátttakenda hafi getað nýtt sér úrræði stjórnvalda sem þegar hafa komið fram.
Foreldrar, sérstaklega einstæðir foreldrar, eru síður komnir með vinnu en aðrir hópar, upplifa almennt meiri kvíða í dag en fyrir tveimur vikum miðað við aðra hópa og telja sig upplifa mesta streitu af öllum hópum.
Stúdentaráð hefur því ákveðið að taka saman kröfur til ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila til að koma til móts við námsmenn.
„Óöruggir og örvæntingarfullir stúdentar sem vita ekki hvort þeir munu missa húsnæði sitt eða hvort þeir muni eiga fyrir nauðsynjum leita til okkar því aðgerðir stjórnvalda gagnast þeim ekki í raun,“ segir í tilkynningu frá Stúdentaráði. Kröfurnar hafa einnig verið sendar á formenn þingflokka, ráðherra og ráðuneyti o.fl.
Nánari upplýsingar um niðurstöður nýjustu könnunar ráðsins og kröfur SHÍ í ástandinu á tímum COVID-19 má finna hér.