Brot á trúnaðarskyldu alvarlegt mál

Lágafellskirkja í Mosfellsbæ.
Lágafellskirkja í Mosfellsbæ. mbl.is/Sigurður Ægisson

Trúnaðarskylda presta er hornsteinn í sambandi þeirra við sóknarbörn og rjúfi prestur þessa trúnaðarskyldu gagnvart einhverjum skjólstæðingi sínum er það alvarlegt mál sem varðar við starfs- og siðareglur presta. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þjóðkirkjunni.

„Prestar gegna afar sérstöku hlutverki þegar kemur að trúnaði gagnvart skjólstæðingum sínum. Það er eðli starfsins að vera hlustandi þegar hugur, sál og hjarta þurfa að tala um sín innstu mál.

Erfiðleikar og gleðistundir  sorg og sigrar eru allt kaflar í lífi mannsins. Presturinn hlustar, leiðbeinir, samgleðst og aðstoðar og gengur veginn fram með skjólstæðingi sínum.
Í ljósi þessa er trúnaðarskylda presta hornsteinn í sambandi þeirra við sóknarbörn og aðra skjólstæðinga.

Rjúfi prestur þessa trúnaðarskyldu gagnvart einhverjum skjólstæðingi sínum er það alvarlegt mál sem varðar við starfs- og siðareglur presta.

Hafa ber í huga að hverjum presti ber að tilkynna öll saknæm mál er varða börn og ungmenni til þar til bærra yfirvalda. Að öllu öðru leyti geymir prestur lífssögu manna hjá sjálfum sér, virðir trúnaðarskyldu sína og köllun.

Í ljósi umræðu í fjölmiðlum um trúnaðarskyldu presta er þessu hér með komið á framfæri. Það tiltekna mál er í forgangi innan kirkjunnar og niðurstöðu að vænta innan tíðar,“ segir í yfirlýsingu frá þjóðkirkjunni. 

Í frétt á Vísi í fyrrakvöld var rætt við Skírni Garðarsson sem tjáði sig um konu sem hafði skráð sig í bakvarðasveit á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík án þess að hafa til þess tilskilda menntun. Sagði Skírnir hana hafa beitt svikum til þess að fá fjárhagsaðstoð úr líknarsjóði Lágafellskirkju árið 2013 þegar hann var prestur í sókninni. Konan kærði hann fyrir brot á persónuverndarlögum á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka