Engum höftum aflétt fyrir 4. maí

Frá blaðamannfundinum í dag.
Frá blaðamannfundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Engum takmörkunum á daglegu lífi fólks verður aflétt hérlendis fyrir 4. maí að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Einungis 10 smit greindust í gær og hefur smitum farið ört fækkandi. Af því að dæma lítur allt út fyrir að samfélagslegt smit hérlendis sé lítið.

Á blaðamannafundi almannavarna í dag var Þórólfur spurður hvort af þeim sökum væri ekki hægt að aflétta einhverjum þeim takmörkunum sem settar hafa verið á líf fólks fyrir fjórða maí, þegar samkomubannið á að taka enda. Við því sagði Þórólfur:

„Nei. Það er ekki hægt held ég. Eins og ég hef margrakið áður þá er þetta langhlaup, við þurfum að fara hægt. Annars förum við bara að fá eitthvert bakslag í þetta. Það væri ekki gaman að gera það og þurfa að fara að herða á öllu upp á nýtt.“

Frá blaðamannfundi almannavarna og embættis landlæknis í dag.
Frá blaðamannfundi almannavarna og embættis landlæknis í dag. Ljósmynd/Lögreglan

„Eins og í íþróttunum“

Þórólfur sagðist telja að Íslendingar ættu að halda sig við upprunalegt plan.

„Ég held að það sé eins og í íþróttunum, við erum með ákveðið leikskipulag í gangi, við erum með ákveðið plan um það hvernig við vinnum leikinn, hvernig hver og einn á að spila. Við höldum því nema eitthvað annað gerist og þá þurfum við að breyta taktík en ég sé ekki ástæðu til að gera það núna.“

Þórólfur var þá inntur eftir því hvort nægilegt mið væri tekið af áhrifum samkomubannsins á efnahag, lýðheilsu og aðra þætti, hvort hætta væri á því að meiri skaði yrði af samkomubanninu en faraldrinum sjálfum. Þórólfur svaraði því til að yfirvöld vildu hvorki gera of mikið né of lítið.

„Við erum í raun með miklu vægari aðgerðir en margar þjóðir. Ég held að við ættum ekki að flýta okkur of hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert