Leitin að Söndru Líf Þórarinsdóttur Long verður með þeim hætti í dag að núna um hádegisbil fór þyrla Landhelgisgæslunnar í loftið og verður við leit við strandlengjuna, þ.e. frá Gróttu og suður fyrir Álftanes.
Jafnframt munu björgunarsveitarmenn vakta sama svæði á háfjöru, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Síðast er vitað um ferðir Söndru Lífar á skírdag. Hún er 27 ára gömul og til heimilis í Hafnarfirði.
Sandra er grannvaxin, um 172 cm á hæð og með mjög sítt rauðleitt hár. Hún var klædd í svartar buxur, svartan leðurjakka og hvíta strigaskó. Sandra var með hálsklút (karrígulur og blettatígursmunstraður) og með svartan og gráan klút/hárband í hárinu. Hún hefur til umráða ljósgráan Ford Focus, skráningarnúmer UH828.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Söndru, eða vita hvar hún er niðurkomin, eru vinsamlegast beðnir að hafa tafarlaust samband við lögregluna í síma 112.