Lyf gætu virkað meðan bóluefnis er beðið

Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor segir aðstæður hagfelldar rannsóknum …
Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor segir aðstæður hagfelldar rannsóknum á nýjum lyfjum. Langtímameginmarkmið sé þó bólusetning. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Líklegt er að lyf ýmiss konar muni koma að verulegu gagni í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn á meðan beðið er eftir bóluefni, að mati Magnúsar Karls Magnússonar, prófessors í lyfja- og eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands og fv. forseta sömu deildar.

Magnús segir í færslu á Facebook að flestir líti á góða bólusetningu sem meginlangtímamarkmið en þar sem gefa þurfi mjög stórum hópi fólks bólusetninguna þurfi þar á undan að vera gengið úr skugga um að hún sé örugg. Eins og gefur að skilja tefur sú krafa ferlið.

Á meðan bóluefnis er leitað verða lyfjarannsóknir mikilvægar. Magnús segir að þær muni beina sjónum að tveimur meginleiðum.

Annars vegar muni þær beinast að fólki sem eru með alvarlegan sjúkdóm, þeim sem liggja á sjúkrahúsum eða gjörgæslu. „Þá verður skoðað hvort lyfin komi í veg fyrir dauða, öndunarvélameðferð, eða hjálpi sjúklingum að komast af öndunarvélum o.s.frv. Í slíkum meðferðum munum við sætta okkur við alvarlegri aukaverkanir en ella. Ástæðan er sú að sjúklingurinn er svo veikur að jafnvel alvarleg aukaverkun í hluta sjúklinga er skárri en það sem bíður án lyfsins,“ skrifar Magnús.

Hins vegar munu lyfjarannsóknir, sem ekki hafa einungis að markmiði að bjarga lífi fársjúkra einstaklinga, miða að því öðru fremur að „bæla faraldurinn“, skrifar Magnús. Virkni þeirrar lyfjagjafar verður því hliðstæðari bólusetningu. „Þarna værum við að nota lyf strax við greiningu og þá þyrftum við að sýna fram á að lyfið bæli veiruna. Þetta er vel þekkt í mörgum veirusjúkdómum. Með slíku mætti annars vegar koma í veg fyrir sjúkdóminn og hins vegar gæti slík meðferð komið í veg fyrir að sjúklingur smiti aðra. Það mætti jafnvel sjá fyrir sér að slík meðferð væri notuð hjá þeim sem eru útsettir fyrir smit. Það sem getur stutt slíkar leiðir eru framfarir í greiningum, meðal annars hraðpróf.“

Fjöldi tilfella lán í óláni

Sagt var frá því á mbl.is í gær að reynt hefði verið að fá lyfið Remdesivir til landsins, enda hefði það gefið nokkuð góða raun í meðferð við COVID-19. Það var fyrst þróað til að sporna gegn áhrifum annarra SARS-veira en COVID-19 en hefur leitt til batamerkja sjúklinga sýktra af þeirri veiru.

Ekki tókst að fá lyfið til landsins enda gríðarleg eftirspurn. Að sögn Magnúsar er þó margt að gerast sem mun hugsanlega hjálpa okkur að ná tökum á þessum vágesti. Hann segir að lyfjaprófanir og aðrar rannsóknir tengdar COVID-19 gangi mun hraðar fyrir sig en vegna annarra sjúkdóma, þar sem fjöldi sjúkdómstilfella er svo gríðarlegur.

„Hinn mikli fjöldi sjúklinga þýðir að það er auðvelt að að fá nógu marga í marktæka rannsókn. Hinn hraði gangur sjúkdómsins (til bata eða versnunar) í dögum eða örfáum vikum hjálpar okkur einnig að fá skjót svör. Þegar við rannsökum sjúkdóma eins og krabbamein eða alzheimer þá þarf að fylgja eftir þátttakendum í rannsókn í nokkur ár. Hér munum við fá svör á vikum eða örfáum mánuðum,“ skrifar Magnús.

Við höfum enga ástæðu til að örvænta

Annað sem Magnús segir að vinni með okkur er hliðstætt eðli þessarar kórónuveiru og annarra veira, sem þegar hafa verið þróuð lyf gegn. „Við höfum mikið af lyfjum sem munu hugsanlega gagnast og hafa farið í gegnum lyfjarannsóknir við öðrum sjúkdómum. Þar eru sennilega efst á blaði veirulyf sem hafa virkni gegn skyldum veirum (meðal annars öðrum kórónuveirum eða öðrum RNA-veirum). Að hafa nú þegar lyfjarannsóknir sem leggja slíkan grunn mun stytta rannsóknarferilinn. Meðal annars vitum við ýmislegt um hugsanlegar aukaverkanir, skammta og lyfjaumbrot,“ skrifar hann.

Á meðan þessum rannsóknum öllum vindur fram segir hann að fara skuli áfram þær leiðir sem við vitum að hafi virkað: Snemmgreiningar, smitrakningar, einangrun, handþvottur „og allt sem Þórólfur, Alma og Víðir hafa hamrað á. En munum: við höfum enga ástæðu til að örvænta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert