500 milljóna króna framlag til rannsóknaseturs

Rannsóknasetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands, …
Rannsóknasetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands, og verður stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í samvinnu við nokkra danska og íslenska vísindamenn. Heine Pedersen / www.ku.dk

Carlsbergsjóðurinn heiðrar Margréti Danadrottningu og Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni af 80 og 90 ára afmæli þeirra með 500 milljóna króna framlagi til dansk-íslensks rannsóknaseturs um hafið, loftslag og samfélag.

Í fréttatilkynningu kemur fram að rannsóknasetrinu er ætlað að auka skilning á samspili loftslags og vistkerfa og á áhrifum loftslagstengdra breytinga í hafinu á íslenska menningu og samfélag. Carlsbergsjóðurinn leggur röskar 500 milljónir króna (25 milljónir danskra króna) til verkefnisins, íslenska ríkið 140 milljónir króna, og Rannsóknasjóður í umsýslu, Rannís, 100 milljónir króna.

Rannsóknasetrið er þvervísindalegt og mun á ensku heita „Queen Margrethe's and Vigdís Finnbogadóttir's Interdisciplinary Research Centre on Ocean, Climate and Society“, en á íslensku „Þvervísindalegt rannsóknasetur Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag“. Rannsóknasetrið er sameiginleg afmælisgjöf til Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands.

Rannsóknasetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands, og verður stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í samvinnu við nokkra danska og íslenska vísindamenn. Framlagi Carlsbergsjóðsins verður fyrst og fremst varið til að ráða unga hæfileikaríka vísindamenn að verkefninu, einkum nýdoktora, en þeir munu stunda rannsóknir bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands. Þeir munu gegna lykilhlutverki við að efla samvinnu þeirra dönsku og íslensku vísindamanna sem tengjast rannsóknasetrinu.

„Í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins á síðasta ári ákváðu íslensk stjórnvöld að heiðra langa og árangursríka vísindasamvinnu Dana og Íslendinga og leggja sitt af mörkum til að styrkja hana til framtíðar. Frá fyrstu tíð hefur Carlsbergsjóðurinn lagt vísindastarfi á Íslandi ómetanlegt lið, m.a. með framlögum til rannsókna á náttúru landsins, tungu okkar, sögu og menningu,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Það er því sérstakt ánægju- og þakkarefni að sjóðurinn geri það nú kleift að hefja umfangsmikla þvervísindalega rannsókn, í samvinnu Dana og Íslendinga, á hafinu við Ísland með sérstöku tilliti til loftslagsbreytinga. Rausnarlegt framlag sjóðsins mun gefa ungum dönskum og íslenskum vísindamönnum tækifæri til að rannsaka eitt af mest knýjandi úrlausnarefnum samtímans í samvinnu við vísindamenn í fremstu röð. Það er viðeigandi að þetta metnaðarfulla verkefni verði tileinkað Margréti Þórhildi Danadrottningu og Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni stórafmæla þeirra en þær hafa öðrum fremur stuðlað að vináttu Dana og Íslendinga og verið okkur sterkar fyrirmyndir,“ er enn fremur haft eftir forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert