Ungur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir brot gegn tveimur fyrrverandi kærustum sínum sem báðar voru ungar að árum þegar maðurinn framdi brotin. Önnur konan er einnig barnsmóðir mannsins. Dómurinn var kveðinn upp 12. mars síðastliðinn en ekki birtur fyrr en í dag.
Maðurinn var dæmdur fyrir hrottalegt ofbeldi í garð fyrrverandi kærustu sinnar sem þá var sautján ára sem og hótanir í garð barnsmóður sinnar sem hann kynntist þegar hún var fjórtán ára og hann sautján. Hann var dæmdur til að greiða kærustunni fyrrverandi 1,7 milljónir króna í miskabætur og barnsmóður sinni 200.000 krónur.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi kærustu sína og veitt henni ítrekuð högg og spörk sem sérstaklega beindust að höfði hennar. Árásin varð til þess að hún þurfti að undirgangast aðgerðir vegna nefbrots og vegna hliðrunar á augnumgjörð en fyrst um sinn gat konan ekki opnað augað eftir árásina. Stúlkan hlaut augntóftargólfsbrot báðum megin, nefbeinsbrot, opið sár á höfði, mar og marga yfirborðsáverka á höfuð, mar á háls, slímhúðir og punktalaga blæðingar í munnslímhúð, yfirborðssár í hársvörð og marga yfirborðsáverka og maráverka víðs vegar um líkamann. Maðurinn játaði líkamsárásina.
Málið hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum áður en árásin ber með sér að hafa verið þess eðlis að stúlkan kunni að hafa verið í lífshættu meðan á henni stóð. Eftir árásina hélt maðurinn á blóðugri stúlkunni yfir Geirsgötuna frá Hafnarsvæðinu. Þá sagði hann að um væri að ræða „mjög dramatísk sambandsslit“.
Hvað varðar barnsmóður gerandans sagði hún í framburði sínum að eftir sambandsslit þeirra hafi ákærði reglulega haft í hótunum við hana um að lemja hana, drepa hana og nauðga henni, og lagði hún fram skjáskot af skilaboðum sem hún kvaðst hafa fengið frá honum, m.a. í gegnum Snapchat 13. október 2019. Um er að ræða eftirfarandi skilaboð en maðurinn játaði að hafa sent þau. Hann taldi háttsemi sína þó ekki refsiverða.
1. Ég lem þig í stöppu.
2. Ég tek þig og kem þig í klessu og nauðga þér þegar ég kem.
3. Þu gerir sjalfri þer bara illt verra með þessu [...]. Ekki gera mig reiðan, Afþvi ég verð reipur þangad til ég sé þig og þa sleppi ég henni ut á þig.
Maðurinn var dæmdur fyrir þessar hótanir en hann var ekki einungis kærður fyrir hótanir í tilfelli barnsmóðurinnar. Hann var einnig ákærður fyrir líkamlegt ofbeldi gagnvart henni. Samkvæmt ákæru höfðu þau ætlað í bíó en ósætti kom upp þegar í ljós kom að hún væri á stefnumótaforritinu Tinder, en að sögn beggja höfðu þau ekki verið í stöðugu sambandi heldur „on and off“. Var hætt við bíóferðina og ekið upp í Heiðmörk en á leiðinni hóf karlmaðurinn að veita konunni ítrekuð högg í andlitið.
Maðurinn neitaði þessum ásökunum og var ekki dæmdur fyrir þær þar sem framburður hennar þótti of „almennur“ og framburður beggja trúverðugur.
Vegna þeirra alvarlegu áverka er fyrrverandi kærasta mannsins hlaut telur Héraðsdómur Reykjavíkur brotið vera stórfellt og varðar það við barnaverndarlög vegna ungs aldurs hennar. Í niðurstöðu dómsins segir að bæði brotin hafi valdið stúlkunum vanlíðan og haft afleiðingar fyrir líðan þeirra og velferð. Þá hafi maðurinn notfært sér það traust sem stúlkurnar báru til hans.
Dómur yfir manninum var mildaður vegna játninga hans og ungs aldurs. Maðurinn var um tvítugt þegar hann framdi brotin. Tólf mánaða fangelsisvist þótti hæfileg refsing og ekki tilefni til að skilorðsbinda hana. Maðurinn hefur nánast óslitið setið í gæsluvarðhaldi frá 19. október og mun sá tími koma til frádráttar refsingunni.