Framkvæmdir hefjast snemma sumars við tvöföldun Vesturlandsvegar milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosfellsbæ.
Vegagerðin auglýsti útboð á þessu verkefni fyrir nokkrum dögum og verða tilboð opnuð snemma í maí. Í kjölfar þess verður hafist handa, en verkefnið felst í að breikka vegsvæðið á kaflanum milli Skarhólabrautar og Langatanga, koma þar fyrir fjórum akreinum og aðskilja akstursstefnur með vegriði.
Vegkaflinn er 1,1 km að lengd og hefur reynst flöskuháls þegar umferð er mikil en við framkvæmdina eykst jafnframt umferðaröryggi til muna. Samhliða verða byggðir hljóðvarnarveggir, hljóðmanir, biðstöð fyrir Strætó og tengingar við stígakerfi Mosfellsbæjar, en sveitarfélagið og Vegagerðin standa sameiginlega að verkinu.