Ræddu þvernorræna nálgun til að efla viðskipti

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norrænir viðskiptaráðherrar funduðu til að ræða þvernorræna nálgun á leiðir til að efla viðskipti, ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar, þjónustugreinar og nýsköpunarmiðuð fyrirtæki á Norðurlöndunum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. 

„Mér fannst mikilvægt að kalla til þessa fundar því að nú sem aldrei fyrr skiptir máli að Norðurlöndin, sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta, nýti samtakamáttinn og sameiginlega krafta sína. Rannsóknir sýna að þau markaðssvæði sem við sækjum hvað mest fram á horfa á Norðurlöndin sem eitt svæði.“ Þetta er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningu. Hún hafði frumkvæði að fundinum.

Aðgerðirnar sem gripið verður til í framhaldinu munu ráða úrslitum um það hvernig Norðurlöndunum gengur að sækja fram þegar þessu tímabili er lokið og störf og samfélagið fara aftur í fastari skorður. Heimsmynd okkar kann að breytast til frambúðar en norrænu ráðherrarnir eru þess fullvissir að Norðurlöndin geti verið í forystuhlutverki þegar kemur að því að aðlaga sig að nýjum veruleika. Þetta segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert