Þeir sem hafa áform um að halda fjöldasamkomur í sumar þar sem saman koma fleiri en 2.000 manns mættu vilja endurskoða þau áform, ef marka má orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. „Í minnisblaði mínu til ráðherra teljum við óvarlegt að fara í slíkar fjöldasamkomur restina af sumrinu og höfum þá miðað við 2.000 manns,“ segir hann við mbl.is.
Ef er litið til þess að hingað til hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra samþykkt og farið eftir tillögum sóttvarnalæknis í einu og öllu þýðir það í þessu tilliti að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður ekki haldin í ár án verulegra breytinga og takmarkana. Þessi viðmið á eftir að auglýsa formlega en Þórólfur segir við mbl.is að þetta sé það sem lagt er upp með.
Það þýðir þá líka að 17. júní verði ekki haldinn hátíðlegur með þeim hætti sem fólk hefur vanist, þegar hefur Secret Solstice-tónlistarhátíðinni verið frestað og þetta ætti samkvæmt horfum nú einnig að taka til Menningarnætur og Hinsegin daga í Reykjavík. Hið sama gildir um íþróttamót víða um land en félögin þurfa annaðhvort að breyta verulega hvernig mótin fara fram eða aflýsa sínum viðburðum.
Á blaðamannafundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag var tilkynnt að frá 4. maí verði samkomubanninu aflétt úr 20 í 50 manna fjöldatakmark, að grunn- og leikskólar taki þá aftur til starfa með hefðbundnum hætti, og að snyrtistofur, tannlæknar og sjúkraþjálfarar geti opnað á nýjan leik. Þá geta háskólar og menntaskólar hafið kennslu á ný en með 50 manna fjöldatakmarki. Þórólfur segir þeirra að ákveða hvort ráðist verði beint í kennslu á þessum tíma eða hvort þetta verði til dæmis áfram gert með sama hætti og nú.
Næstu afléttingar ættu að koma 3-4 vikum síðar, sem sagt í vikunni 25. maí til 1. júní, en Þórólfur telur að það verði í seinni hluta þessarar viku frekar en fyrri. Hann segir þó einnig koma til greina að þessu verði flýtt ef árangurinn gefur tilefni til. Að óbreyttu verða sundlaugar og líkamsræktarstöðvar opnaðar á þessum tíma í lok maí og ef til vill verða fjöldatakmarkanir enn rýmkaðar.
Þórólfur segir búið að teikna upp hvernig skrefin verða, en þau verða ekki gerð opinber nema skref fyrir skref, og ekki einu sinni ráðherra hefur upplýsingar frá sóttvarnalækni um hvaða aðgerðum verði aflétt hvenær. Þetta breytist enda allt hratt.
Nú stefnir allt í rétta átt í baráttu Íslendinga við veiruna; smit verða færri dag frá degi og þeir sem batnað er þeim mun fleiri. Samkvæmt spálíkani Háskóla Íslands frá því í dag verða dagleg ný smit hér á landi frá 0-1 undir lok aprílmánaðar ef fram heldur sem horfir. Þórólfur segir að þrátt fyrir að smit verði svo fá í mælingum þýði það ekki að hægt sé að hrósa sigri, enda geta til dæmis margir enn verið með veiruna einkennalausir þó að mælingar sýni lítinn fjölda.
Þeir einkennalausu eru þannig ekki líklegastir til að vera þeir sem eru skimaðir fyrir veirunni og getur hún því farið svo að segja huldu höfði í þeim um hríð.
Það þurfa því að vera verulega sterk merki um að veiran sé dáin út til að hægt sé að lýsa slíku yfir, en slíkt er þó ekki ómögulegt, segir Þórólfur, og tekur sem dæmi SARS-veiruna árið sem dó drottni sínum eftir eins árs langan faraldur árið 2002. Til þess að geta farið að segja fyrir um slík endalok þarf að byrja á að bíða niðurstaðna úr könnunum á næmi Íslendinga fyrir veirunni sem væntanlegar eru í þessum mánuði.
Að sögn Þórólfs og Ölmu Möllers landlæknis getur smitrakningarappið komið að góðum notum þegar fram líða stundir og hömlum verið aflétt að einhverju marki. Það er hugsað sem langtímatæki til að berjast við veiruna þegar útbreiðsla hennar er orðin mjög takmörkuð, en enn er ástæða til að hafa augun opin. Þá verður hægt að rekja eigin ferðir til þess að kanna hvort maður hafi verið útsettur fyrir smiti, en appið mun aldrei senda fólki sérstakar tilkynningar um að það hafi verið útsett fyrir smiti.