Tíu ár frá því gos hófst í Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull gaus árið 2010 og raskaði flugi í langan tíma.
Eyjafjallajökull gaus árið 2010 og raskaði flugi í langan tíma. mbl.is/Golli

Í dag eru nákvæmlega tíu ár síðan gos hófst í Eyjafjallajökli, en það var 14. apríl árið 2010 sem gosið byrjaði nokkuð rólega þótt það ætti svo eftir að hafa meiri áhrif á umheiminn en nokkurt þeirra gosa sem hafa orðið á Íslandi frá Skaftáreldum árið 1783.

Flugsamgöngur í Evrópu og yfir Norður-Atlantshafi lögðust að mestu af í nokkra daga vegna hinnar fínu gosösku sem barst með norðvestlægum vindi í átt að Evrópu. Flugfarþegar sem urðu strandaglópar á flugvöllum víðs vegar um Evrópu vönduðu jöklinum og Íslendingum ekki kveðjurnar fyrir þetta rót, en gosið og landkynning í kjölfarið átti hins vegar eftir að koma Íslandi rækilega á kortið sem álitlegum ferðamannastað.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands rifjaði í dag upp á Facebook-síðu sinni gosið sjálft og áhrif þess.

Gosið stóð yfir í 39 daga

Um var að ræða sprengigos í toppgígnum sem stóð samfellt til 22. maí, eða í 39 daga. Allan þann tíma var sprengivirkni í gígnum og gjóskumyndun, mismikil þó. Á tímabili rann einnig hraun til norðurs, að mestu undir jökli þótt ísinn bráðnaði ofan af hrauninu þegar frá leið. Fyrstu dagana fylgdu jökulhlaup.

Aðalhlaupið fór niður Markarfljót en varnargarðar og brýr héldu að mestu, þó svo að rjúfa þyrfti Þjóðveg 1 til að fá sem mest af hlaupvatninu fram hjá Markarfljótsbrúnni. Engu munaði að hlaupið færi yfir varnargarðinn austan brúarinnar. Hefði það gerst hefði fljótið valdið miklum skemmdum á ræktarlandi á stóru svæði undir Eyjafjöllum. Þessu tókst að forða með fumlausum viðbrögðum Guðjóns Sveinssonar gröfumanns frá Suðurverki sem að beiðni Vegagerðarinnar gerði skörð í veginn austan brúar meðan hlaupið nálgaðist.

Áhrif gossins á byggðirnar sunnan og austan Eyjafjallajökuls voru töluverð og meðan á umbrotunum stóð þurftu íbúar næst fjallinu í þrígang að yfirgefa heimili sín í flýti vegna flóðahættu. Gjóskufallið undir Eyjafjöllum og í Mýrdal olli búsifjum meðan á gosinu stóð. Sandstormar urðu algengir eftir gosið, þegar vindur feykti þurri gjóskunni til og frá. Mánuðina eftir gosið komu aurflóð úr hlíðum Eyjafjallajökuls þegar rigning losaði um þykka gjóskuna. Mest kvað að þessu í Svaðbælisá.

Einn stærsti viðburður síðustu áratuga

Innan eldfjallafræði er eldgosið í Eyjafjallajökli einn stærsti viðburður síðustu áratuga. Á 9. áratug 20. aldar gerðist það í tvígang að farþegaþotur voru hætt komnar eftir að hafa lent í gjóskuskýjum frá eldgosum, í fyrra skiptið í Indónesíu og því síðara í Alaska. Í kjölfarið varð til vöktunarkerfi þar sem heiminum var skipt niður í svæði og á nokkrum af veðurstofum heimsins var komið á setrum (Volcanic Ash Advisory Centers eða VAAC) sem hafa það hlutverk að spá fyrir um dreifingu gjósku í þegar eldgos verða. Spárnar eru síðan lagðar til grundvallar ákvarðana um hvaða svæði eru örugg til flugs og hver eru hættuleg. Þetta kerfi hefur forðað mörgum flugvélum frá því að lenda í háska og sennilega bjargað mörgum mannslífum. Gosið í Eyjafjallajökli var aldrei mjög öflugt. En það var langvinnt og vindáttir voru með þeim hætti að askan barst til suðurs og suðausturs.

Hópar vísindafólks um allan heim hafa rannsakað gosið og margvísleg viðfangsefni sem því tengjast. Til að meta áhrif tiltekinna atburða á vísindaheiminn getur verðið fróðlegt að skoða hve margar ritrýndar tímaritsgreinar hafa komið út um atburðinn. Lausleg skoðun á vefnum Web of Science sýnir að síðastliðin 10 ár hafa birst 208 greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum þar sem nafn Eyjafjallajökuls kemur fram í titlinum. Er það álíka mikið og samanlagður fjöldi greina með nafni Kötlu, Heklu, Grímsvatna, Bárðarbungu, Öskju og Kröflu á sama tímabili. Fjöldi tilvitnana í greinarnar um Eyjafjallajökul er jafnframt miklu meiri en samanlagðar tilvitnanir í allar greinar sem út hafa komið um hinar eldstöðvarnar á sama tímabili. Þó svo að fjöldi tímaritsgreina og tilvitnana segi ekki alla söguna ber flestum saman um að gosið í Eyjafjallajökli 2010 hafi haft meiri áhrif á þróun eldfjallarannsókna en flest önnur eldgos sem orðið hafa síðustu áratugi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka