Tíu ár frá því gos hófst í Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull gaus árið 2010 og raskaði flugi í langan tíma.
Eyjafjallajökull gaus árið 2010 og raskaði flugi í langan tíma. mbl.is/Golli

Í dag eru ná­kvæm­lega tíu ár síðan gos hófst í Eyja­fjalla­jökli, en það var 14. apríl árið 2010 sem gosið byrjaði nokkuð ró­lega þótt það ætti svo eft­ir að hafa meiri áhrif á um­heim­inn en nokk­urt þeirra gosa sem hafa orðið á Íslandi frá Skaft­áreld­um árið 1783.

Flug­sam­göng­ur í Evr­ópu og yfir Norður-Atlants­hafi lögðust að mestu af í nokkra daga vegna hinn­ar fínu gosösku sem barst með norðvest­læg­um vindi í átt að Evr­ópu. Flug­f­arþegar sem urðu strandaglóp­ar á flug­völl­um víðs veg­ar um Evr­ópu vönduðu jökl­in­um og Íslend­ing­um ekki kveðjurn­ar fyr­ir þetta rót, en gosið og land­kynn­ing í kjöl­farið átti hins veg­ar eft­ir að koma Íslandi ræki­lega á kortið sem álit­leg­um ferðamannastað.

Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands rifjaði í dag upp á Face­book-síðu sinni gosið sjálft og áhrif þess.

Gosið stóð yfir í 39 daga

Um var að ræða sprengigos í topp­gígn­um sem stóð sam­fellt til 22. maí, eða í 39 daga. All­an þann tíma var sprengi­virkni í gígn­um og gjósku­mynd­un, mis­mik­il þó. Á tíma­bili rann einnig hraun til norðurs, að mestu und­ir jökli þótt ís­inn bráðnaði ofan af hraun­inu þegar frá leið. Fyrstu dag­ana fylgdu jök­ul­hlaup.

Aðal­hlaupið fór niður Markarfljót en varn­argarðar og brýr héldu að mestu, þó svo að rjúfa þyrfti Þjóðveg 1 til að fá sem mest af hlaup­vatn­inu fram hjá Markarfljóts­brúnni. Engu munaði að hlaupið færi yfir varn­argarðinn aust­an brú­ar­inn­ar. Hefði það gerst hefði fljótið valdið mikl­um skemmd­um á rækt­ar­landi á stóru svæði und­ir Eyja­fjöll­um. Þessu tókst að forða með fum­laus­um viðbrögðum Guðjóns Sveins­son­ar gröf­u­manns frá Suður­verki sem að beiðni Vega­gerðar­inn­ar gerði skörð í veg­inn aust­an brú­ar meðan hlaupið nálgaðist.

Áhrif goss­ins á byggðirn­ar sunn­an og aust­an Eyja­fjalla­jök­uls voru tölu­verð og meðan á um­brot­un­um stóð þurftu íbú­ar næst fjall­inu í þrígang að yf­ir­gefa heim­ili sín í flýti vegna flóðahættu. Gjósku­fallið und­ir Eyja­fjöll­um og í Mýr­dal olli búsifj­um meðan á gos­inu stóð. Sand­storm­ar urðu al­geng­ir eft­ir gosið, þegar vind­ur feykti þurri gjósk­unni til og frá. Mánuðina eft­ir gosið komu aur­flóð úr hlíðum Eyja­fjalla­jök­uls þegar rign­ing losaði um þykka gjósk­una. Mest kvað að þessu í Svaðbælisá.

Einn stærsti viðburður síðustu ára­tuga

Inn­an eld­fjalla­fræði er eld­gosið í Eyja­fjalla­jökli einn stærsti viðburður síðustu ára­tuga. Á 9. ára­tug 20. ald­ar gerðist það í tvígang að farþegaþotur voru hætt komn­ar eft­ir að hafa lent í gjósku­skýj­um frá eld­gos­um, í fyrra skiptið í Indó­nes­íu og því síðara í Alaska. Í kjöl­farið varð til vökt­un­ar­kerfi þar sem heim­in­um var skipt niður í svæði og á nokkr­um af veður­stof­um heims­ins var komið á setr­um (Volcanic Ash Advisory Centers eða VAAC) sem hafa það hlut­verk að spá fyr­ir um dreif­ingu gjósku í þegar eld­gos verða. Spárn­ar eru síðan lagðar til grund­vall­ar ákv­arðana um hvaða svæði eru ör­ugg til flugs og hver eru hættu­leg. Þetta kerfi hef­ur forðað mörg­um flug­vél­um frá því að lenda í háska og senni­lega bjargað mörg­um manns­líf­um. Gosið í Eyja­fjalla­jökli var aldrei mjög öfl­ugt. En það var lang­vinnt og vindátt­ir voru með þeim hætti að ask­an barst til suðurs og suðaust­urs.

Hóp­ar vís­inda­fólks um all­an heim hafa rann­sakað gosið og marg­vís­leg viðfangs­efni sem því tengj­ast. Til að meta áhrif til­tek­inna at­b­urða á vís­inda­heim­inn get­ur verðið fróðlegt að skoða hve marg­ar ritrýnd­ar tíma­rits­grein­ar hafa komið út um at­b­urðinn. Laus­leg skoðun á vefn­um Web of Science sýn­ir að síðastliðin 10 ár hafa birst 208 grein­ar í alþjóðleg­um ritrýnd­um tíma­rit­um þar sem nafn Eyja­fjalla­jök­uls kem­ur fram í titl­in­um. Er það álíka mikið og sam­an­lagður fjöldi greina með nafni Kötlu, Heklu, Grím­s­vatna, Bárðarbungu, Öskju og Kröflu á sama tíma­bili. Fjöldi til­vitn­ana í grein­arn­ar um Eyja­fjalla­jök­ul er jafn­framt miklu meiri en sam­an­lagðar til­vitn­an­ir í all­ar grein­ar sem út hafa komið um hinar eld­stöðvarn­ar á sama tíma­bili. Þó svo að fjöldi tíma­rits­greina og til­vitn­ana segi ekki alla sög­una ber flest­um sam­an um að gosið í Eyja­fjalla­jökli 2010 hafi haft meiri áhrif á þróun eld­fjall­a­rann­sókna en flest önn­ur eld­gos sem orðið hafa síðustu ára­tugi.



mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert