Andlát: Jón H. Bergs

Jón H. Bergs.
Jón H. Bergs.

Jón H. Bergs, fv. formaður Vinnuveitendasambands Íslands og forstjóri SS, lést á Dvalarheimilinu Eir 13. apríl síðastliðinn, á 93. aldursári.

Hann fæddist í Reykjavík 14. september 1927, yngstur fjögurra barna þeirra hjóna Helga Bergs, forstjóra Sláturfélags Suðurlands, og Elínar Bergs Jónsdóttur húsfreyju.

Jón gekk í skóla í Æfingadeild Kennaraskólans, var í Austurbæjarskólanum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947, lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1952 og stundaði framhaldsnám, einkum í verslunarrétti, við Columbia University School of Law í New York 1953-54 með styrk frá The Rotary Foundation. Hann öðlaðist hdl. réttindi árið 1956.

Jón var fulltrúi hjá Sláturfélagi Suðurlands í Reykjavík á árunum 1951-56 og forstjóri fyrirtækisins frá 1957-89. Hann sat í framkvæmdanefnd Vinnuveitendasambands Íslands 1961-78, var formaður þess 1971-78, sat í framkvæmdaráði Stjórnunarfélagsins, var aðalræðismaður Kanada um árabil, sat í stjórnum Eimskipafélagsins og Íslensks markaðar hf. og var varaformaður Landssambands sláturleyfishafa. Auk þess sat hann í stjórnum ýmissa félaga og fyrirtækja, starfaði í Rótarýklúbbi Reykjavíkur og Frímúrarareglunni um árabil.

Jón var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1973. Var einnig sæmdur ýmsum viðurkenningum frá Kanada og var heiðursfélagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur.

Jón æfði og keppti í knattspyrnu í yngri flokkum Vals á sínum æskuárum. Seinna stundaði hann skíðaíþróttina af kappi, einnig golfið og fór oft í laxveiði með félögum sínum. Þá hafði hann gaman af því að spila bridds í góðra vina hópi.

Eiginkona Jóns var Gyða Bergs, hún lést í nóvember 2017. Dóttir þeirra, Laura Bergs, kennari og verkefnastjóri í Reykjavík, lést árið 2010 en eftirlifandi eru bræðurnir Magnús Helgi Bergs verkfræðingur, búsettur í Danmörku, og Jón Gunnar Bergs, framkvæmdastjóri í Reykjavík. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin orðin sjö talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert