Verði flugsamgöngur í lamasessi um lengri tíma mun ganga hratt á lausafé Isavia sem á og rekur flugvöllinn í Keflavík. Þetta segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri fyrirtækisins.
Hann bendir á að lausafjárstaða fyrirtækisins sé sterk en að mikill fastur kostnaður valdi því að án tekna þorni sjóðir félagsins upp á fimm mánuðum. Því standi nú yfir vinna við að styrkja fjárhagsstöðuna enn frekar.
Engar viðbragðsáætlanir Isavia gerðu ráð fyrir þeim mögleika að allar flugsamgöngur, meira og minna, gætu lagst af svo vikum skiptir og segir Sveinbjörn ástandið sannast sagna óraunverulegt.
Yfir páskahátíðina, frá skírdegi og fram á mánudag, fóru 99 farþegar um Keflavíkurflugvöll. Yfir sömu daga í fyrra fóru ríflega 84 þúsund farþegar um völlinn. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sveinbjörn að fullkomin óvissa sé um hvenær og hvernig farþegaflug muni hefjast á ný.