Mannvit tekur út Landeyjahöfn

Mannviti er ætlað að leggja fram tillögur að úrbótum í …
Mannviti er ætlað að leggja fram tillögur að úrbótum í Landeyjahöfn sem gætu dregið úr, eða alfarið komið í veg fyrir, að dýpka þurfi höfnina með reglulegu millibili. Á myndinni sést dýpkunarskipið Dísa að störfum. mbl.is/Hallur Már

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur samið við verkfræðistofuna Mannvit um óháða úttekt á fyrirhuguðum framkvæmdum í Landeyjahöfn. Fyrirtækið átti lægsta boð í verkefnið í örútboði á vegum Ríkiskaupa, 8,06 milljónir króna, auk þess að fá flest stig samkvæmt matslíkani Ríkiskaupa.

Úttektin er gerð í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var í desember í tengslum við fimm ára samgönguáætlun Alþingis fyrir árin 2019-2023. Var þar samþykkt að ráðist skyldi í úttekt á því hvort gera mætti úrbætur á höfninni sem yrðu til þess að þörfin fyrir reglulega dýpkun hennar minnkaði eða hyrfi jafnvel. Þá var óskað eftir mati á hvers konar „dýpkunaraðferða“ mætti grípa til ef endurbætur þættu ekki gerlegar, af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum.

Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010 en við það styttist sjóferðin milli lands og Eyja til muna. Höfnin hefur verið til töluverðra vandræða síðan þá eftir að í ljós kom að sandburður er mun meiri en áætlað hafði verið. Árið 2017 var greint frá því að kostnaður vegna framkvæmda sem ráðast hefði þurft í á árunum 2011-2017, þ.e. eftir að höfnin var tilbúin, næmi 2,4 milljörðum króna og vegur þar þyngst kostnaður við dýpkun hafnarinnar.

„Vel rökstuddar og skilgreindar tillögur eftir óháða úttekt verða nýttar til að undirbúa útboð til endurbóta á höfninni,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. „Ég bind vonir við að hægt verði að ráðast strax í úrbætur að lokinni úttektinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert