Viðburðir í Reykjavík endurhugsaðir

Svona verður líklega ekki umhorfs í miðbænum 17. júní 2020, …
Svona verður líklega ekki umhorfs í miðbænum 17. júní 2020, eins og það var 2019. Hátíðin verður þó haldin, kannski bara inni í hverfunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ljóst er að 17. júní, Menningarnótt og Hinsegin dagar í Reykjavík fara ekki fram með hefðbundnu sniði í sumar. Ekkert hefur þó verið blásið af með öllu og skipuleggjendur eru ákveðnir í að halda þetta allt saman hátíðlegt, þó að fara þurfi nýjar leiðir.

Hinsegin dagar hafa gefið það út að Gleðigangan sjálf verði að öllum líkindum ekki gengin í ár. Að sama skapi er ljóst að á 17. júní verða ekki skrúðgöngur í miðbænum og að á Menningarnótt verði reynt að dreifa álaginu.

Útivera leiðarljós

„17. júní þarf ekki alltaf að vera eins. Ef ekki núna, þá hvenær eigum við að nýta tækifærið til að endurhugsa þetta og prófa eitthvað nýtt?“ segir Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

Arna, sem heldur utan um hvort tveggja Menningarnótt og 17. júní hátíðarhöldin, segir að engu hafi verið gersamlega aflýst enn. Frekar sé verið að líta á þessar aðstæður sem áskorun til að endurhugsa hlutina í sumar og reyna að miðla málum með nýjum hætti.

„Þessu gæti verið dreift um hverfin eða dreift yfir tímabil, það má stækka einhverja þætti hátíðarhaldanna en draga úr öðrum,“ segir Arna, og segir aðstandendur á fullu við að leggja fram hugmyndir og kanna hvaða leiðir eru færar til þess að halda viðburðina en innan settra marka.

Hvernig sem fer segir Arna að þrátt fyrir allt verði útivera höfð að leiðarljósi, enda verði fólk líklega orðið mjög þreytt á tölvuskjánum í sumar. „Fólk mun vilja komast út og fagna, og við viljum að það geti notið hátíðanna þannig, hvort sem það verður inni í hverfunum eða annars staðar,“ segir Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert