Forseti Alþingis getur ekki afhent einum aðila dagskrárvaldið

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sleit þingfundi eftir um það …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sleit þingfundi eftir um það bil fimm mínútur í dag eftir harða gagnrýni frá Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, og í ljósi þess að fleiri voru í Alþingissalnum en máttu vera samkvæmt fjöldatakmörkunum sem eru í gildi. Skjáskot/Alþingi

„Ég mun ekki bjóða þjóðinni upp á það að horfa á þjóðþingið sitt í einhverju innihaldslausu og ástæðulausu pexi á jafn alvarlegum tímum og nú eru. Þá er betra að halda ekki fundi,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is um ákvörðun sína að slíta þingfundi fimm mínútum eftir að hann hófst í morgun.

Steingrímur segist mjög undrandi á því að stjórnarandstaðan hafi ekki einu sinni leyft fundinum, óundirbúnum fyrirspurnum og eftir atvikum umræðum um stjórn þingsins að klárast áður en athugasemdir voru gerðar við dagskrá þingfundarins í dag.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, kom í pontu undir liðnum fundarstjórn forseta og hóf ræðu sína á að vitna í sóttvarnalög. Í þeim stæði að það væri lög­bund­in skylda hvers ein­stak­lings að gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálf­an sig né aðra. Næst benti hann á að í salnum væru fleiri en 20 manns og því væri verið að brjóta gegn samkomubanni.

Hann sagði ástæðuna vera þá að forseti þingsins hefði sett mál á dagskrá sem ágreiningur væri um og að þingmenn hefðu ekki átt annarra kosta völ en að mæta til að virða lýðræðið. Hann sagði Steingrím hafa hundsað ítrekar beiðnir um að sleppa því að setja málið á dagskrá, sem er frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um vegaframkvæmdir.

„Sem þingmaður þá stendur þú vörð um þau gildi, loforð, væntingar kjósenda og almannahag. Þegar þingforseti setur stöðuna svona upp, þá annaðhvort gerir þú það ekki eða þú ferð á svig við sóttvarnalög. Það er ekki hægt að bjóða þinginu upp á þetta, starfsfólki eða þjóðinni,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is.

Líkur voru á að málið yrði ekki rætt í dag

Spurður hvers vegna það hafi ekki verið hægt að taka tillit til óska stjórnarandstöðunnar og sleppa því að setja málið á dagskrá, vitandi það að það væri ágreiningur um það segir Steingrímur að það hafi ekki verið neitt sérstaklega mikilvægt. Málið væri með lægsta númerið af þeim málum sem bíða fyrstu umræðu og það er oft notað sem viðmið um hvaða mál eru sett á dagskrá.

Auk þess hafi Steingrímur sent stjórnarandstöðunni tölvupóst síðdegis í gær þar sem hann hafi sagt henni að málið mætti mæta afgangi og yrði ekki tekið fyrir ef stjórnarandstaðan vildi það ekki. Í þriðja lagi hafi staðið til að funda í skamman tíma í dag og því hefði mátt gera ráð fyrir því að málið myndi detta af dagskrá án umræðu vegna þess að það var síðasta mál á dagskrá.

„En þetta er fyrsta umræða og þegar menn tala um umdeild mál þá hefur ekki verið venjan að nota það í þessu samhengi fyrr en mál er búið að fara í nefnd og afstaða liggur fyrir – meiri- og minnihlutaálit. Þá er talað um ágreiningsmál eða umdeild mál,“ segir Steingrímur og bætir við:

„Við fyrstu umræðu liggur iðulega ekkert fyrir hver viðhorf eru til mála. Fyrsta umræðan er til þess að kalla fram sjónarmið og flagga fyrstu viðbrögðum við málum áður en þau ganga til nefndar.“

Kom til móts við óskir um óundirbúnar fyrirspurnir og umræður um störf þingsins

En lá ekki ljóst fyrir að þetta yrði ágreiningsmál?

„Jú það lá fyrir að það yrðu einhverjar umræður um það og þetta mál er ekkert sérstakt forgangsmál en það hafa verið að berast óskir um að taka það fyrir vegna þess að þarna eru framkvæmdir á bakvið. Þetta er hluti af miklum fjárfestinga- og framkvæmdapakka og þess vegna hefur verið áhugi á því í umhverfis- og samgöngunefnd að hún fengi þetta mál til sín áður en hún lokaði samgönguáætlun sem er þar í vinnslu,“ segir Steingrímur.

Hann segir að það hafi komið honum mjög á óvart að stjórnarandstaðan skyldi vera í þessum ham að ætla að fara í langa fundarstjórnarlotu áður en fundurinn svo mikið sem hæfist, sérstaklega því fundurinn hafi, að þeirra ósk, verið bæði með óundirbúnum fyrirspurnum og störfum þingsins á dagskrá sem sé frekar óvenjulegt.

„Ég var að verða við óskum stjórnarandstöðunnar um að í fyrsta lagi að hafa þingfund í dag þó að ekki sé brýn þörf á því vegna COVID-mála. Ég var í öðru lagi að verða við óskum þeirra um bæði óundirbúnar fyrirspurnir og umræður um störf þingsins. Þannig ég átti ekki von á því að þau færu að gera ágreining um dagskrána fyrr en hún væri komið að minnsta kosti á þann stað sem þau væru ósatt við,“ útskýrir Steingrímur vonsvikinn.

Segist hann ekki hafa haft áhuga á því að bjóða landsmönnum upp á að Alþingi Íslendinga hefði ekkert betra að gera við þessar aðstæður en að þrasa um fundarstjórn. Þessi hnútur hefði verið vel leysanlegur ef menn hefðu viljað mætast einhvers staðar og hann hafi verið búinn að bjóða upp á það.

Ætlar ekki að sitja undir ásökunum Jóns Þórs

Í ljósi þess, hefði þá ekki verið farsælast að taka málið einfaldlega af dagskrá?

„Þau vissu að það væri í boði að taka þetta mál ekki fyrir í dag. En það er auðvitað ekki þannig að forseti geti afhent einum aðila innan þingsins algjörlega dagskrárvaldið. Þau verða aðeins að átta sig á því líka og það er auðvitað þannig að þegar búið er að koma mjög ríkulega til móts við óskir stjórnarandstöðunnar þá á maður frekar von á því að hún leggi eitthvað af mörkum á móti.“

„Mér fannst þetta vera ansi lítið endurgjald og ansi einhliða. Því ég er persónulega ekkert spenntur fyrir því að vera halda þingfundi nema þegar brýna nauðsyn ber til vegna COVID-mála. En ég hef skilning á óskum stjórnarandstöðunnar að hún fái færi á ríkisstjórn og geti verið í óundirbúnum fyrirspurnum. Ég taldi mig vera koma til móts við þær óskir og reiknað með einhverjum skilningi á móti en hann var ekki til staðar og þá sá ég ekki ástæðu til að halda þennan fund,“ segir Steingrímur og bætir því við að hann hafi alls ekki verið sáttur með ummæli Jóns Þórs.

„Að síðustu ætla ég auðvitað ekki að sitja undir ásökunum af því tagi sem Jón Þór Ólafsson var með að ég sé sérstaklega að stofna lífi og heilsu manna í hættu og vera þess valdandi að fólk geti ekki uppfyllt sóttvarnareglur.“

Stjórnarandstaðan að nota málið til að fara í slag

Spurður hvort að Steingrímur hafi ekki í raun verið að setja þingmenn stjórnarandstöðunnar milli steins og sleggju – að þurfa að velja á milli þess að leyfa ágreiningsmáli að komast án gagnrýni í gegnum fyrstu umræðu eða mæta í þingsal og eiga á hættu að brjóta gegn reglum um samkomubann – segist hann ekki vera á því að það sé rétta túlkun á aðstæðum.

„Það var eftir að dagskráin var komin á vef Alþingis þegar þau byrjuðu að mótmæla sérstaklega þessu máli. Þá svara ég og segi: „Það má alveg mæta afgangi, hafiði ekki áhyggjur af því.“ Það þýðir á því tungumáli sem við notum á milli okkar að ég var tilbúinn til að taka það ekki fyrir, þannig að þau vissu það strax í gær. En það héldu áfram mikil læti útaf þessu og þá áttaði ég mig á því að það væri eitthvað annað og meira þarna á ferðinni. Þannig að málið er ekki alveg eins einfalt og það lítur út frá þeirra bæjardyrum séð.“

„Þau eru auðvitað bara að nota þetta til þess að geta farið í mikinn slag og það er að mínu mati mjög veik málsástæða – afar veik málsástæða. Vegna þess að þau vissu frá þriðjudagsmorgni að þetta yrði upplegg dagskrárinnar í dag,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert