Niðurstöður könnunar sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á útbreiðslu skollakopps í Reyðarfirði leiddu í ljós að nýtanleg ígulkeramið virðast vera þar til staðar.
Kortleggja þarf þau betur áður en til ráðgjafar kemur og gæta þarf þess að fara ekki inn á svæði þar sem kóralþörungar eru, segir í ágripi skýrslunnar. Skollakoppur er eina ígulkerategundin sem nýtt er hérlendis og hefur einkum verið veiddur í Breiðafirði.
Í janúar fékk útgerðin Emel ehf. í Neskaupstað leyfi fyrir tilraunaveiðum í Reyðarfirði og fór leit að nýtanlegum ígulkeramiðum fram í Reyðarfirði í lok mánaðarins. Skollakoppur fannst á 9 af 10 stöðvum sem rannsakaðar voru og alltaf í töluverðu magni. Meðalstærð var yfir leyfilegri löndunarstærð og lítið um meðafla. Mesta magnið sem fannst í norðanverðum firðinum veiddist á svipuðum slóðum og góður afli fékkst í leiðangri 1993.