Strokupiltar handteknir í Þykkvabæ

Piltarnir fundust í Þykkvabæ.
Piltarnir fundust í Þykkvabæ. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á Suðurlandi með aðstoð þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar handtók þrjá drengi, sem höfðu strokið af meðferðarheimilinu að Lækjarbakka í Rangárþingi ytra, skömmu eftir miðnætti í nótt.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, staðfestir þetta við blaðamann mbl.is en Þykkbæingar höfðu orðið varir við aðgerðir lögreglunnar í seint gærkvöldi og greint frá þeim á Facebook. Jafnframt að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi tekið þátt í aðgerðunum og staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, það við mbl.is en þyrlusveitin var við æfingar á svæðinu þegar útkallið kom. Að sögn Ásgeirs var aðgerðum lokið klukkan 00:15.

Þremenningarnir höfðu stolið bifreið á Lækjarbakka og stungið af en fundust eins og áður sagði í Þykkvabænum um miðnætti.

Vísir greindi fyrst frá málinu.

Barnaverndarstofa rekur meðferðarheimilið að Lækjarbakka og eru ungmenni á aldrinum 14 til 18 ára vistuð þar. Meðferðin á Lækjarbakka er ætluð unglingum sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda þegar önnur og vægari úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að unglingur hafi áður lokið meðferð á Stuðlum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi tók sérsveit ríkislögreglustjóra einnig þátt í aðgerðunum. Þyrla landhelgisgæslunnar var í æfingarflugi og aðstoðaði við leit og fann áhöfn þyrlunnar bifreiðina þar sem hún var mannlaus nokkuð frá þeim stað þar sem bifreiðinni hafi verið stolið. Piltarnir höfðu þá flúið undan lögreglu á fæti en voru handteknir nokkru síðar.

Málið er til rannsóknar og er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert